Betri leikreglur

Greinar

Páll Pétursson félagsmálaráðherra hefur kynnt frumvarp til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, sem á rætur að rekja til nefndar, er skilaði skýrslu um málið skömmu fyrir áramót. Sú nefnd var skipuð með þátttöku aðila vinnumarkaðarins, en komst samt að niðurstöðu.

Ráðamenn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fengu hins vegar bakþanka og vildu fá svigrúm til að semja milli aðila vinnumarkaðarins um breytingarnar, án þess að þær væru beinlínis lögfestar. Þær tilraunir náðu ekki árangri á tilsettum tíma.

Félagsmálaráðherra sagðist verða að leggja frumvarpið núna fyrir Alþingi til þess að unnt yrði að lögfesta það að vori. Búast má við, að eitthvert framhald verði á efasemdum samtaka launafólks, þótt þær komi tæpast í veg fyrir, að frumvarpið verði að lögum í vor.

Rauði þráðurinn í frumvarpinu er færsla ákvörðunarvalds frá forustu til óbreyttra félagsmanna. Þrengdir eru möguleikar stjórna, trúnaðarráða og fámennra félagsfunda til að taka afdrifaríkar ákvarðanir í vinnudeilum án samráðs við breiðari hóp félagsmanna.

Felld er niður heimild samninganefnda, félagsstjórna og trúnaðarráða til að boða vinnustöðvun án skýrrar heimildar félagsmanna. Leynileg og skrifleg atkvæðagreiðsla þarf fyrst að fara fram meðal félagsmanna, þar sem minnst einn fimmti hluti þeirra tekur þátt.

Lagafrumvarpið er ekki róttækara en svo, að fræðilega séð getur rúmlega einn tíundi hluti félagsmanna ákveðið fyrir hönd þeirra allra að hefja vinnustöðvun. Frumvarpið er því ekki hár þröskuldur í vegi verkfalls, ef málsástæður knýja á, að því vopni verði beitt.

Sami lági þröskuldurinn verður samkvæmt frumvarpinu í vegi þess, að fámenn atkvæðagreiðsla í stéttarfélagi felli gerðan kjarasamning. Minnst einn fimmti hluti félagsmanna þarf að taka þátt í atkvæðagreiðslu til þess að meirihluti í henni geti fellt kjarasamninginn.

Til þess að auðvelda almenna þátttöku í atkvæðagreiðslum um vinnustöðvun og kjarasamninga heimilar frumvarpið notkun póstatkvæðagreiðslu. Ef slík atkvæðagreiðsla fer fram, nægir einfaldur meirihluti greiddra atkvæða til að binda félagið í heild.

Tvö atriði önnur eru mikilvæg í frumvarpinu. Annað er heimild til að stofna vinnustaðafélög í fyrirtækjum, sem hafa að minnsta kosti 250 starfsmenn. Þessi félög geta samkvæmt frumvarpinu samið fyrir hönd starfsfólks, ef þrír fjórðu hlutar þess eru í félaginu.

Samkvæmt þessu er dregið úr ýmsum vandræðum, sem hljótast af því, að mörg stéttarfélög koma við sögu á fjölmennum vinnustöðum, svo sem dæmin sanna hjá Flugleiðum. En hvers eiga að gjalda aðrir fjölstétta vinnustaðir, þar sem eru innan við 250 starfsmenn?

Hitt atriðið er, að sáttasemjari fær aukið vald. Hann má leggja fram sameiginlega miðlunartillögu, sem nær til margra hópa, og má ákveða, að fram fari póstatkvæðagreiðsla um miðlunartillögu. Til þess að fella slíka tillögu þarf þriðjungur að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sumum mun finnast ástæðulaust að reisa slíka þröskulda í vinnudeilum. Aðrir munu telja þær vinnudeilur ekki vera mjög brýnar, sem ekki njóta nægilegs stuðnings til að komast yfir þröskuldana. Flestir alþingismenn munu væntanlega vera á síðari skoðuninni.

Leikreglur frumvarpsins eru siðferðilega betri en þær leikreglur, sem nú er farið eftir, og ættu að draga úr þeirri skoðun, að vinnudeilur séu tímaskekkja.

Jónas Kristjánsson

DV