Betur má, ef duga skal

Greinar

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa loks vaknað til vitundar um þjóðlega og siðferðilega nauðsyn þess, að íslenzka ríkið taki til höndum í forræðismáli Sophiu Hansen og dætra hennar. Mál hennar vinnst ekki með fjársöfnunum almennings og þrautseigri lögmennsku eingöngu.

Málsefni eru ljós. Fyrir fjórum árum var Sophiu dæmt forræði yfir dætrum sínum. Deiluaðilar og málsaðilar voru allir íslenzkir ríkisborgarar og því var farið með málið að íslenzkum lögum. Tyrklandi ber samkvæmt fjölþjóðasamningum að virða þennan lögmæta úrskurð.

Fyrir sex árum rændi faðirinn dætrunum og hefur síðan einhliða mótað viðhorf þeirra eins og þau hafa komið fram og munu koma fram fyrir dómstólum í Tyrklandi. Í 63 skipti hefur hann brotið úrskurð dómstóls í Tyrklandi um rétt Sophiu til að umgangast börnin.

Réttarfarslega er meðferð málsins í Tyrklandi skrípaleikur einn. Er þar ekki eingöngu að sakast við héraðsdóminn í Istanbúl, sem aldrei hefur þorað að dæma eftir tyrkneskum lögum af ótta við hefndaraðgerðir ofsatrúarmanna, sem fara ekki dult með hótanir sínar.

Hæstiréttur Tyrklands er ekki síður sekur í málinu. Í stað þess að úrskurða hreint og beint í málinu hefur hann hvað eftir annað vikið sér undan með því að vísa því til baka á tæknilegum forsendum og þannig framlengt hinn réttarfarslega skrípaleik.

Mesta og þyngsta ábyrgð ber þó ríkisstjórn Tyrklands, sem hefur árum saman látið undir höfuð leggjast að framkvæma fjölþjóðlegar skuldbindingar sínar, sem felast í að hafa hendur í hári mannræningjans og frelsa stúlkurnar með valdi úr greipum ofsatrúarmanna.

Það er fyrst með tilkomu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, að íslenzk stjórnvöld eru farin að taka af festu á þessu augljósa broti Tyrklands á fjölþjóðasamningum, sem það er aðili að. En betur má, ef duga skal, þar sem aðstæður í Tyrklandi fara versnandi.

Djúpstæður klofningur er kominn milli veraldlegu stjórnmálaflokkanna, sem hafa ráðið ríkjum í Tyrklandi og reynt að gera landið evrópskt. Nú biðla þeir til flokks ofsatrúarmanna, sem vill færa landið og þar með réttarfar þess frá Evrópu nútímans í átt til miðalda.

Þegar slíkar hræringar eru í stjórnmálum, dregur það úr áhuga veraldlegu stjórnmálaflokkanna að stuðla að framkvæmd evrópskra hugmynda um lög og rétt, þegar þær stangast á við hugmyndir ofsatrúarmanna, sem verið er að ræða við um aðild að ríkisstjórn.

Við þurfum því að taka upp tyrkneska mannréttindahneykslið á víðara vettvangi en í tvíhliða viðræðum eingöngu. Utanríkisráðuneytið þarf að taka málið upp á öllum þeim vettvangi, sem er sameiginlegur okkur og Tyrklandi, svo sem í Evrópuráði og Atlantshafsbandalagi.

Það er ófært, að Tyrkland komist upp með að virða að vettugi aðild sína að margs konar samningum og sáttmálum á fjölþjóðavettvangi, allt frá fjöldamorðum á Kúrdum og háskalegum hernaðaraðgerðum á Eyjahafi yfir í ofsóknir Tyrklands gegn Sophiu Hansen.

Þess vegna þarf að fara fram á öllum vígstöðvum í senn, með tvíhliða og marghliða þrýstingi. Utanríkisráðuneytið þarf að koma upp fastri skrifstofu í Tyrklandi og skipuleggja um leið harðar aðgerðir í ýmsum fjölþjóðasamtökum, þar sem heitt er undir Tyrkjum.

Síðast en ekki sízt þarf íslenzka ríkið að sanna sig með því að taka snöggtum meiri fjárhagsþátt í þessu mikilvæga prófmáli mannréttinda, laga og réttar.

Jónas Kristjánsson

DV