Bezt að hafa allt í bænum

Greinar

Þegar rætt var um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, sáu margir landsbyggðarmenn, að slíkt mundi valda þeim kostnaði og óþægindum. Þeir vildu áfram geta rekið öll sín erindi í kallfæri frá vellinum í borgarmiðju Vatnsmýrar.

Helzt vildu þeir, að allar opinberar stofnanir og peningastofnanir, sem þeir skipta við, væru í Kvosinni eða í hlíðum hennar. Þeim finnst ódýrast og þægilegast að geta skotizt milli húsa í sjálfum miðbænum og þurfa ekki að fara langt austur fyrir læk eða upp á heiðar.

Nú þegar finnst landsbyggðarmönnum langt að heimsækja Vegagerð ríkisins inn fyrir Rauðará og Rannsóknastofnun landbúnaðarins upp á Keldnaholt. Þeir mundu láta í sér heyra, ef þeir þyrftu að fara alla leið í Borgarnes og á Hvanneyri til að heimsækja þessar stofnanir.

Reykvíkingar og nærsveitungar þeirra eru ekki mikið inni á teppi opinberra stofnana á borð við Vegagerð ríkisins, Skipulag ríkisins, Byggðastofnun, Fasteignamat og Rafmagnsveitur ríkisins. Reykvíkinga vegna mættu þessar stofnanir vera á Sprengisandi eða í Grímsey.

Gestir þessara stofnana eru fyrst og fremst landsbyggðarfólk. Fremstir eru þar í flokki sveitarstjórnarmenn, sem fara hópferðir til Reykjavíkur og reka í einni ferð mörg erindi á ýmsum stöðum í bænum. Þessi skipan er tiltölulega ódýr og þægileg, hefur gefizt vel.

Gamanið færi að kárna, ef þeir þyrftu að fara til Borgarness að heimsækja Vegagerðina, til Ísafjarðar að heimsækja Fasteignamatið, til Sauðárkróks að heimsækja Skipulagið, til Akureyrar að heimsækja Byggðastofnun og til Egilsstaða að heimsækja Rafmagnsveiturnar.Borgfirðingar geta ekki einbeitt sér að heimsóknum til Vegagerðarinnar, Hnífsdælingar til Fasteignamatsins, Skagfirðingar til Skipulagsins, Eyfirðingar til Byggðastofnunar og Héraðsbúar til Rafmagnsveitnanna. Þeir þurfa líka að fara til allra hinna stofnananna.

Ef tillögur opinberrar nefndar um flutning ríkisstofnana ná fram að ganga, mun ferðakostnaður og tímaeyðsla landsbyggðarfólks aukast, einkum sveitarstjórnarfólks, og í sumum tilvikum margfaldast. Við sjáum fordæmið í Noregi af ofurkostnaði af þessum völdum.

Þótt þægilegt væri fyrir Akureyringa að hafa Byggðastofnun heima á hlaði og að fá útsvör starfsmanna hennar, mundu á móti vega óþægindin af því að þurfa að skipta við Vegagerðina í Borgarnesi, Fasteignamatið á Ísafirði og Rafmagnsveiturnar á Egilsstöðum.

Góðviljaðar tillögur nefndarinnar eru dæmi um skort á yfirsýn og framsýni. Nefndarmenn sjá nákvæmlega það, sem þeir eru að fjalla um hverju sinni, og ekkert um fram það. Þeir gera sér enga grein fyrir óbeinum afleiðingum, sem skaða hagsmuni landsbyggðarinnar.

Enda hló samgönguráðherra og hafði málið í flimtingum, þegar hann heyrði tillöguna um flutning Vegagerðarinnar til Borgarness. Er hann þó með harðari byggðastefnumönnum í stjórnmálunum. Viðbrögð hans benda til, að hinar skammsýnu tillögur fái að rykfalla.

Flutningsnefndin áttaði sig ekki á, að Reykjavík er hentug þjónustumiðstöð fyrir alla landsmenn. Þangað vilja menn fara og ekki annað til að reka margvísleg erindi. Helzt kvarta menn um að þurfa að fara í úthverfi bæjarins til að komast í sumar stofnanir.

Mikilvægasta byggðastefnumálið er, að landsbyggðin geti á einum stað gengið að allri þjónustu hins opinbera. Starfsfólk Byggðastofnunar getur staðfest, að svo sé.

Jónas Kristjánsson

DV