GÁFAÐASTA kenning stjórnmála liðins árs er, að Davíð Oddsson hafi dáið út úr pólitíkinni eins og Kristur á krossinum til að friðþægja fyrir syndir Sjálfstæðisflokksins. Eftir standi flokkurinn og nýr formaður hans syndlaus og forkláraður.
MERKASTA uppgötvun áramótanna er, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur síðastur allra Íslendinga uppgötvað, að hátt matarverð sé á Íslandi og ætlar að skipa nefnd í málið. Við hin höfum vitað um verndun búvöru í áratugi.
LENGSTA kosningastríð í sögunni er hafið. Ráðherrar, sem leynt og ljóst hafa ofsótt gamalmenni og öryrkja með hugvitsamlegum hætti í meira en áratug ætla nú að finna, hver sé vandi þeirra og laga það fyrir næstu kosningar.
LEIÐINLEGASTA kryddsíld sögunnar var háð í sjónvarpinu á gamlársdag. Allur vindur er úr pólitík skekinn, síðan Davíð Oddsson kýldi menn út og suður. Nú voru allir formenn meira eða minna í sama flokki og hrósuðu hver öðrum í hástert.
FRUMLEGASTA stjórnmálakenning liðins árs er skipting Matthíasar Johannessen ritstjóra á auðvaldi landsins í gott og vont. Gott auðvald var Kolkrabbinn, sem elskaði Matthías á hans tíma og vont auðvald keppir nú við Morgunblaðið.
SKEMMTILEGASTA ritdeila ársins er ágreiningur Hallgríms Helgasonar rithöfundar og Egils Helgasonar álitsgjafa um stöðu Moggans í tilverunni. Þar tókust á þeir tveir, sem bezta stjórnmáladálka skrifa um þessar mundir. Meira, takk.
DV