Beztu kokkar í heimi

Veitingar

Bezti kokkur í heimi er auðvitað franskur, Marc Veyrat, með fullt hús stiga. Næstur er belgískur, með 19,5 af 20, Peter Gossens. Um hundrað kokkar í heiminum hafa 18 eða fleiri stig, þar af tíu í París, sjö í New York og sex í Bruxelles. Neðar er vænn bunki 17 stiga kokka, sennilega um 500 manns, þar á meðal Paul Bocuse í Lyon, sem íslenzkir kokkar virðast telja mesta kokk í heimi. Stigagjöfin er úr Gault-Millau og Gayot, sem lengi hafa verið áreiðanlegustu handbækur um gengi kokka í heiminum, mæla álit fagmanna, meðan ágætur Zagat mælir álit áhugamanna og Michelin er hafður að spotti.