Áfengi er talið svo hættulegt, að tíundi hver maður verði fyrir skakkaföllum af ofnotkun þess, auk tjóns, slysa og sorgar, sem margir neytendur þessarar vöru dreifa meðal vandamanna sinna og ókunnugra.
Hvatningar til bindindis eða hófsemi hafa ekki borið árangur. Þess vegna finnst sumum rétt að banna áfengi til að hindra menn í að hafa ekki vit fyrir sjálfum sér, til að hindra menn í að valda sér og öðrum óbætanlegu tjóni.
Við höfum reynt vínbann hér á landi og deilum um árangur þess. Altjend sprakk vínbannið. Allir fá tækifæri til að hafa ekki vit fyrir sér, þrátt fyrir hvatningar og frýjuorð. Menn fá að leika sér að eldinum.
Tóbak er talið svo hættulegt, að notendur þess kalli yfir sig vanheilsu, alvarlega sjúkdóma og ótímabæran dauða. Þeir valda fjölskyldum sínum fjárhagstjóni og eru ekki borgunarmenn fyrir brunaslysum, sem þeir geta valdið.
Notkun tóbaks er satt að segja svo alvarleg, að vannotkun bílbelta er hreinn barnaleikur í samanburði. Samt leyfir Stóri bróðir mönnum að nota tóbak eins og áfengi, þótt hann vilji nú refsa mönnum fyrir að nota ekki bílbelti.
Við höfum mörg önnur dæmi um, að mönnum líðist að hafa ekki vit fyrir sér. Þeim leyfist að valda sér líkamlegu og fjárhagslegu tjóni og að dreifa um sig vandamálum, sem þeir gætu ekki bætt, þótt þeir vildu.
Vísindamenn hafa komizt að raun um, að Íslendingar séu að meðaltali tíu kílóum yfir kjörþyngd. Þetta leiðir til fjölda ótímabærra dauðdaga og rýrðrar getu manna til að framfleyta fjölskyldum sínum. Samt er þetta leyft.
Vísindamenn hafa komizt að raun um, að mönnun sé hollt að hlaupa nokkra vegalengd á degi hverjum til að halda sér í formi, fækka fjarvistum frá nýtum athöfnum, tryggja tekjur sínar og lengja starfsævina. Samt er þetta ekki opinber skylda.
Hagfræðingar hafa reiknað út hið gífurlega tjón þjóðfélagsins af vanhirðu foreldra um tennur barna sinna, sem leiðir til svimandi dýrra skólatannlækninga. Samt er foreldrum ekki refsað fyrir að valda þessu tjóni.
Hinn litli maður hefur ekki vit fyrir sér. Hann hleypur ekki. Hann borðar sykur. Hann burstar tennur ekki nógu vel. Hann er of feitur. Hann reykir tóbak. Hann drekkur áfengi. Stóri bróðir veit hins vegar betur.
Stóri bróðir hefur vald til að refsa mönnum fyrir að haga sér ekki rétt. Hann refsar mönnum fyrir að stöðva ekki bíla við aðalbrautir, aka yfir löglegum hámarkshraða og fyrir ölvun við akstur, þótt engin slys hafi orðið.
Stóri bróðir hefur ekki enn tekið tannburstun og skokk upp á sína arma. Hann gerir það kannski síðar. Um þessar mundir er hann að þrýsta þingmönnum til að gera vannotkun bílbelta refsiverða. Á því sviði skal nú hafa vit fyrir fólki.
Tölurnar, sem Stóri bróðir flaggar, eru alvarlegar. Trúlega mætti finna jafngildar tölur um manntjón og líkamsskaða af sykuráti, svo ekki sé talað um aðra leyfða hluti á borð við tóbak og áfengi.
Menn kunna að hlæja nú. En ríkið er jafnt og þétt að þrengja að frelsi borgaranna, líka frelsi þeirra til að hafa ekki vit fyrir sér. Með sama áframhaldi hættum við að hugsa, því að Stóri bróðir sér um allt, veit allt og bannar allt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið