Bing Dao

Veitingar

Kínversku veitingahúsi var fyrir fáum árum djarflega skákað inn á aldamótagömul pakkhúsloft Gránufélagshúsanna frá aldamótunum við Strandgötuna utanverða á Akureyri. Ég minnist þess að hafa fengið góðan mat snemma á ferli þess. Nú rífst kokkurinn svo hátt á íslenzku inni í eldhúsi að það heyrist fram í sal.

Hreinsað hefur verið út af loftinu svo að burðarvirki og fulningur norræns kaupskaparhúss sést. Vandað timburgólf hefur verið lagt og síðan komið fyrir hálfum gámi af Kínalugtum og -blævængjum milli stoða, bita og skástífa. Niðurstaðan er Bing Dao, svo fáránleg, að hún jaðrar við að vera skemmtileg.

Andstæðurnar skerptust enn, þegar spariklæddur og fagmenntaður þjónn af íslenzkum víkingaættum vísaði kurteislega til sætis við græna dúka og bleikar tauþurrkur undir litlum gluggum, sem veittu útsýni yfir snyrtilega strandlengju til skemmtiferðaskipa á Pollinum. Staðan í skákinni byrjaði ekki að gliðna fyrr en komið var að kínverska matnum.

Fyrst kom á borð ristað brauð með frosnum smjörkúlum. Tim Yum súpa var sterkt kryddsoð með grænmeti, ekki merkilegt. Léttsteikt grænmeti með indversku karríi var válegur fyrirboði aðalrétta, ljótur réttur undir miklu magni þykkrar hveitisósu.

Við annað tækifæri var kokkurinn ljúfari. Þá hvítlauksristaði hann meyran hörpufisk, sem borinn var fram á salatbeði með hörðum og stökkum hrísgrjónanúðlum. Enn fremur léttsteikti hann meyran smokkfisk á hrísgrjónabeði með sterkri ostrusósu.

Kjúklingar eiga að henta kínverskri matreiðslu. Heldur mikið eldaður kjúklingur í sterkri apríkósu- og karrísósu var betri en þurrir kjúklingabitar í mikilli og þykkri hnetu-hveitisósu með kínverskum sveppum, ljótur réttur. Líklega er til of mikils mælzt, að íslenzkur kokkur skilji kínverska matreiðslu.

Samt tók ekki steininn úr fyrr en kom að valinu úr kafla íslenzkra rétta á matseðlinum. Grillaðar lambalundir voru gráar og seigar, nánast harðar, bornar fram með saffrankryddaðri eggjasósu og ofsteiktu grænmeti. Kokkurinn hafði yfirgefið Vesturlönd án þess að hafa fundið Austurlönd.

Ískrem reyndist vera bráðinn vanilluís, borinn fram með ferskum ávaxtabitum. Ostakaka hússins var hin þéttasta sem ég man eftir að hafa fengið. Kaffi var í lagi.

Tapskákirnar á Bing Dao voru ekki gefnar. 3450 krónur greiðast að meðaltali fyrir þríréttað. Í hádeginu fæst hlaðborð með súpu, heitum réttum og köldum á 790 krónur, sýnu vænlegri kostur, sem ég hef ekki prófað.

Jónas Kristjánsson

DV