Birtar vinnureglur

Greinar

Eðlilegt er, að þeir, sem bera meiri virðingu fyrir Reykjavíkurlistanum en Sjálfstæðisflokknum, geri meiri kröfur til hins fyrra um, að hann misnoti ekki nýfengna aðstöðu sína hjá borginni til að hygla pólitískum blöðum sínum með þjónustuauglýsingum frá Reykjavíkurborg.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er ekki í þessum hópi, enda hefur hann ekki gert athugasemdir við slíkar auglýsingar, sem birtust nýlega í blaði Reykjavíkurlistans. Stafar það auðvitað af, að hann veit, hvernig þessum málum var háttað á valdatíma flokksins.

Upplýsingafulltrúi gamla og nýja meirihlutans í Reykjavík hefur tjáð sig um þetta mál. Hann segir, að meginreglan sé að auglýsa í dagblöðum. Lítill hluti auglýsingapakkans hafi farið til pólitískra blaða, en þó ekki fyrir kosningar. Sömu reglur gildi nú og hafi áður gilt.

Þótt fyrri og nýrri meirihluti virðist þannig vera í stórum dráttum sammála um, hvernig með svona mál skuli fara, er ekki þar með sagt, að niðurstaða þeirra sé rétt. Pólitísk öfl hafa sameiginlega hagsmuni af, að geta hjálpað pólitísku útgáfustarfi allra aðila á þennan hátt.

Þar sem málsaðilar hafa nú tjáð sig um þetta mál, er kjörið tækifæri til að setja á blað reglur um meðferð slíkra mála og birta opinberlega. Það dregur úr líkum á misskilningi og bindur auðvitað um leið hendur þeirra, sem vildu fara af sporinu á ókomnum kjörtímabilum.

Í reglunum sé fjallað um heildarupphæð slíkra auglýsinga á ári, svo að borgarbúar geti hver fyrir sig myndað sér skoðun á, hvort þetta sé úr hófi fram eða ekki. Ennfremur sé fjallað um skiptingu auglýsinganna, svo að ekki sé mismunað milli meirihluta og minnihluta.

Í reglunum sé líka fjallað um útbreiðslu þessara pólitísku blaða, svo að höfð sé hliðsjón af auglýsingahagsmunum borgarinnar. Vegna borgarhagsmuna þarf að hafa í huga, að útbreiðsla gefinna blaða er ekki sama eðlis og útbreiðsla seldra blaða, sem kaupendur telja marktækari.

Með því að birta slíkar reglur getur Reykjavíkurborg orðið fyrirmynd annarra sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Það er einmitt hjá ríkinu, að pottur er helzt brotinn á þessu sviði, svo sem sézt hefur af vítaverðum forgangi Alþýðublaðsins að auglýsingum heilbrigðisráðuneytis.

Flestar auglýsingar ráðuneytis heilbrigðismála fóru á hæsta fersentrimetraverðinu í það blað, sem hafði minnsta útbreiðslu allra. Ráðuneytisstjórinn hefur gefið um þetta marklítil svör eins og raunar um önnur mál, sem varða afkáralega stjórn hans á ráðuneytinu.

Raunar á það að vera skylda valdsmanna að skrá allar áður óskráðar vinnureglur, er fjalla um atriði, sem kunna að vera á gráum svæðum réttlætis og góðra siða, og birta þessar reglur opinberlega, svo að allir geti séð, hver veruleikinn er, og myndað sér skoðun á honum.

Slíkt er öllum til góðs, þar á meðal stjórnmála- og embættismönnum. Fyrrverandi bæjarstjóri og félagsmálaráðherra hefði ekki lent í hremmingum haustsins, ef verið hefðu til opinberlega birtar vinnureglur hjá bæ og ríki um meðferð mála, sem urðu honum að falli.

Þeir valdsmenn, sem fara á undan öðrum með góðu fordæmi á þessu sviði, hvort sem þeir eru borgarstjórar eða bæjarstjórar, ráðuneytisstjórar eða ráðherrar, munu uppskera aukið traust fólks. Ekki veitir valdsmönnum af að snúa vörn í sókn á tíma vaxandi vantrausts.

Ráðamenn Reykjavíkurborgar hafa fremur góða aðstöðu til að brjóta ísinn í gráum málum á öllum sviðum og marka tímamót í annars spilltum stjórnmálum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV