Birtir upp við Blöndu.

Greinar

Skyndilega lítur svo út á nýjan leik, að næsta orkuver verði reist við Blöndu. Íbúar Norðurlands vestra og einkum þá Húnvetningar hafa á síðustu stundu tekið ráðin af þingflokksformanninum og Húnvetningnum Páli Péturssyni.

Þeir fjölmenntu suður með niðurstöður einnar viku undirskriftasöfnunar, þar sem í ljós kom, að rúmlega helmingur kjósenda kjördæmisins og 80% húnvetnskra kjósenda studdi Blönduvirkjun án afarkostanna, sem Páll hefur sett.

Þessir menn átta sig á, að orkuver verður því aðeins reist við Blöndu að þessu sinni, að orkukostnaður þaðan verði einn hinn lægsti, sem völ er á. Og þeir vita, að kröfur Páls hleypa kostnaðinum upp úr öllu valdi.

Þeir skilja, að Norðurland vestra býr við of einhæft atvinnulíf, sem orkuver gerir fjölbreyttara, bæði meðan á byggingu þess stendur og eftir að það er tekið til starfa. Þeir sjá atvinnuhagsmuni kjördæmisins.

Bændurnir í hópi þessara manna hafa hugboð um, að hætta sé á, að umráðin yfir landinu verði af þeim tekin, ef þeir sinna ekki eðlilegum kröfum þjóðarinnar, þegar búið er að verða við kröfum þeirra um bætur.

“Bændur vilja bæði búa í sátt við landið og þjóðina,” sagði Stefán A. Jónsson á Kagaðarhóli af þessu tilefni. Þetta eru. snjöll og drengileg orð, sem landsmenn mættu gera að sínum, einnig í öðrum málum en þessu.

Skyndiaðgerðir heimamanna hafa sýnt þingmönnum, ríkisstjórn og sáttanefnd Blönduvirkjunar, að enginn þungi er að baki krafna Páls Péturssonar um stíflugarða út og suður allar heiðar. Heimamenn vilja orkuverið án garða Páls.

Þar með ætti að nást samstaða í nefndinni um virkjunartilhögun, sem fer mjög nærri hinni hagkvæmustu. Sú samstaða verður að nást mjög fljótlega, ef Blanda á að verða fyrir valinu. Annars fara Fljótsdalur eða Sultartangi fram fyrir.

Þessi óvænta taflstaða hefur sett Hjörleif Guttormsson orkuráðherra í slæman vanda. Hann hafði hugsað sér að slá tvær flugur í einu höggi, virkja í Fljótsdal í eigin kjördæmi og dunda svo lengi við það, að stóriðja yrði ekki kleif.

Nú stendur Hjörleifur andspænis því, að hans heimamenn muni áfram krefjast Fljótsdalsvirkjunar, þótt ákveðið verði að reisa fyrst orkuver við Blöndu. Austfirðingum er jafnannt um atvinnuhagsmuni sína og Norðlendingum.

Hjörleifur lendir einnig í þeim vanda, að hans eigin heimamenn munu með vaxandi þunga vilja fá orkufrekan iðnað á Reyðarfjörð til að flýta fyrir orkuveri í Fljótsdal. Sú stefna hefur smitazt inn í hans eigin flokk þar eystra.

Ef svo fer, hafa norðlenzkir undirskrifta- og suðurgöngumenn ekki aðeins unnið þjóðinni það gagn að gera Blönduvirkjun kleifa. Þeir hafa líka haldið opnum kostum á aukinni stóriðju, ef þjóðin telur hana henta sér.

Ekki er ljóst, hvað Páll Pétursson og Hjörleifur Guttormsson geta gert til að mæta hinum nýju aðstæðum. Þar þurfa þeir að glíma við grjótharðan stjórnmálamann, Pálma Jónsson landbúnaðarráðherra, formann Rafmagnsveitna ríkisins.

Ef Pálmi nær að haga svo til, að sáttanefnd Blönduvirkjunar komi sér saman um virkjunartilhögun, sem gerir Blönduvirkjun fjárhagslega skynsamlega, má með sanni segja, að málið hafi snúizt Norðlendingum og þjóðinni til heilla.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið