Frá Kvíum við Skjálfandafljót um Suðurárhraun, Suðurárbotna, Kerlingardyngju og Vörðufell að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.
Þetta er sennilega gamla Biskupaleiðin yfir Ódáðahraun, greiðfær og merkt með vörðum. Henni er betur lýst í leiðunum: Suðurárhraun, Kerlingardyngja og Veggjafell. Þar er fjallað um hvern fyrir sig hinna þriggja hluta leiðarinnar. Öll Biskupaleið yfir Ódáðahraun er vörðuð. Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði leitaði að vörðunum og fann þær. Mynda misjafnlega gisinn leiðarvísi um þennan forna þjóðveg, sem var í greiðri notkun fram á sautjándu öld, en týndist síðan að mestu. Ingvar Teitsson færði vörðurnar í GPS-net og skrifaði góðan bækling, sem heitir “Biskupaleið yfir Ódáðahraun”. Síðastur manna fyrri alda fór Bjarni Oddsson sýslumaður árið 1636. Síðan týndist leiðin og var týnd í hálfa fjórðu öld.
Byrjum við Kvíar við Skjálfandafljót, neðan við Kiðagil. Förum norðaustur um Suðurárhraun í Suðurárbotna og síðan um Krákárbotna og fyrir suðurenda Bláfellshala. Þaðan til austur milli Ketildyngju að norðan og Kerlingardyngju að sunnan. Suðaustur um Bræðraklif í Hafragjá norðaustan Gjáfjalla og áfram suðaustur um Veggjafell í Grafarlönd og þaðan austur fyrir Ferjufjall sunnanvert að Ferjuhyl á Jökulsá á Fjöllum. Sjá nánari leiðarlýsingar um Suðurárhraun, Kerlingardyngju og Veggjafell.
88,3 km
Þingeyjarsýslur
Skálar:
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.
Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Suðurá, Suðurárbotnar, Krákárbotnar, Réttartorfa.
Nálægar leiðir: Suðurárhraun, Kerlingardyngja, Veggjafell, Dyngjufjalladalur, Almannavegur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort