Fín kort eru í nýjustu árbók Ferðafélags Íslands eins og í mörgum þeirra hin síðari ár. Þau eru sérhönnuð fyrir efni bókarinnar. Jón Gauti Jónsson bókarhöfundur segir m.a. frá merkri vinnu Ferðafélags Akureyrar við að kanna hina gömlu Biskupaleið um Ódáðahraun, finna vörður leiðarinnar, lappa upp á þær og skrá hnit þeirra á GPS. Jón dregur þessa áður týndu leið inn á bókarkortin. Þetta var leið Skálholtsbiskupa til austasta hluta umdæmis þeirra. Hún lá upp með Þjórsá, yfir Sprengisand og Ódáðahraun að ferju, sem þá var sunnarlega yfir Jökulsá á Fjöllum, þar sem enn heitir Ferjufjall, sunnan Möðrudals á Fjöllum.