Frá Skógarkoti á Þingvöllum um Lyngdalsheiði að Skálholti.
Öldum saman voru Skálholt og Þingvellir mestu valdastaðir landsins og tíðar ferðir fyrirmanna á veginum. Einn merkasti reiðvegur landsins og er fær enn þann dag í dag. Öll leiðin er fjölfarin og skýr. Heldur er þó amast við reið á einstiginu milli Þingvalla og Skógarkots og frekar mælt með öðru einstigi frá Skógarhólum til Skógarkots og svo áfram leiðina, sem hér er lýst. Stundum kölluð Lyngdalsheiði, enda liggur hún um heiðina norðaustanverða.
1. janúar 1242 fór Órækja Snorrason um heiðina á leið í Skálholtsbardaga við Gissur Þorvaldsson. Í febrúar 1253 lenti Þórður Hítnesingur í hrakningum á heiðinni og varð að snúa við til Gjábakka í Þingvallasveit. Fór síðan vestan við heiðina um Búrfell og um Bakkagötur til Skálholts.
Byrjum á Þingvöllum. Skammt austan gatnamóta vegar að hótelbrúnni og gamla vegarins austan Þingvallavatns komum við á merkta slóð til Skógarkots. Þar byrjum við og þaðan förum við áfram merkta slóð suður að Vatnsvík. Síðan smáspöl með þjóðvegi 361 og þá aftur á slóðina og áfram til Gjábakka. Þaðan fylgir slóðin þjóðvegi 365 rúma þrjá kílómetra til austsuðausturs. Við Taglaflöt förum við á slóð suðaustur fyrir suðurenda Litla-Reyðarbarms og áfram suðaustur um norðausturhorn Lyngdalsheiðar. Við förum hjá Haustrúguvörðu rétt austan fjallaskálans í Kringlumýri. Áfram suðaustur um Biskupsbrekku, Biskupsvörðu, Beinvörðu og Áfangamýri. Síðan á Kirkjuvaði yfir Stangarlæk og suðaustur um Smalaskála að Apavatni milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða. Þar förum við yfir þjóðveg 37 og fylgjum reiðleið norðan Mosfells og síðan um Sel og Reiðholt til brúarinnar á Brúará hjá Kjóastöðum. Og loks með þjóðvegi 31 um Kerslæk og Tíðaholt til Skálholts.
12,7 km
Árnessýsla
Skálar:
Kringlumýri: N64 11.080 W20 55.714.
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.
Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Hrafnabjörg, Lyngdalsheiði, Eskidalsvað, Bakkagötur, Selkotsvegur, Kóngsvegurinn, Prestastígur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins & Leiðir Skálholtsbiskupa