Bitur reynsla og þó góð.

Greinar

Löngum hafa viðhorf Íslendinga til stóriðju skipzt í tvö horn. Menn hafa annaðhvort verið með henni eða á móti. Þetta hefur verið eins konar trú á báða bóga.

Þar sem allir stjórnmálaflokkar hafa nú lagt hönd á plóginn við að byggja upp stóriðju hér á landi, ætti að vera hægt að tala af meiri skynsemi um frekari útþenslu á því sviði.

Stóriðja, sem er að meira eða minna leyti í eigu svonefndra “erlendra auðhringa”, er engin allra meina bót í atvinnulífinu. En hún er gagnlegt hjálpartæki, ef varlega er farið og rétt á málum haldið.

Rómantískir þjóðernissinnar hafa málað svartar myndir af náttúrubörnum, sem breytist í gráan múg við katla og færibönd stóriðjunnar. Þeir hafa málað svartar myndir af Íslandi í erlendri áþján.

Í rauninni eru þetta rangar myndir, þótt reynsla okkar af álverinu í Straumsvík hafi að ýmsu leyti verið neikvæð. En sú bitra reynsla hefur svo aftur komið okkur að gagni í málmblendiverinu á Grundartanga.

Alvarlegasti hnekkirinn í Straumsvík var raforkusamningurinn, er löngum hefur verið afsakaður sem fyrsta tilraun. En það er ekki nema hluti af sannleik í þeirri afsökun.

Á þeim tíma var ris okkar svo lágt, að samningamenn ríkisins gagnvart álverinu komu síðar í ljós í stjórn þess. Slíkt gat aðeins gerzt á Íslandi og í Kardimommubæ.

Álverið fékk í haust 220 volta forgangsorku með 8000 stunda nýtingartíma á 2,05 krónur. Það er innan við helmingur af því, sem sambærilegir viðskiptamenn, þ.e. stærstu rafveiturnar, þurftu að greiða, 4,41 krónur.

Þessi verðmunur er út í hött. Og leitt er til þess að vita, að leyfð skuli frekari stækkun alversins, án þess að verðið í heild sé fært í rétt horf. Við greiðum niður orku til álversins, hvað sem öllum bókhaldssjónhverfingum líður.

Öðru vísi var staðið að málum, þegar samið var um orkuverð til Grundartanga, sem notar að hálfu forgangsorku og að hálfu afgangsorku. Þar náðist útkoma, sem er í samræmi við annað orkuverð í landinu.

220 volta forgangsorka með 8000 stunda nýtingartíma kostaði í haust 4,41 krónur í heildsölu. Afgangsorkan kostaði mun minna eða 1,02 krónur í heildsölu. Málmblendiverið ætti því að borga bil beggja eða 2,71 krónu.

Í rauninni greiddi það 2,49 krónur fyrir orkuna. Það er heldur lág tala, en samt nálægt því að vera í samræmi við annað orkuverð í landinu. Við þurfum ekki að vera óánægð með þann árangur í annarri tilraun.

Stóriðjan á Íslandi hefur að ýmsu leyti verið til fyrirmyndar í mannlegum samskiptum. Lífskjör og aðbúnaður starfsfólks er mun betri en gengur og gerist í landinu. Þar er ekki um að ræða neina færibandaþræla.

Álverið varð sér til stórskammar með því að reyna að skjóta sér undan eðlilegum mengunarvörnum og gat slegið þeim á frest. Svo virðist hins vegar, að á Grundartanga séu mengunarvarnir frú upphafi í betra lagi en í öðrum iðnaði á Íslandi.

Rangt væri að kenna mismunandi eignaraðild um muninn á reynslunni af álverinu og málmblendiverinu. Við eigum framvegis að geta haldið okkar hlut, þótt sumt af stóriðju framtíðarinnar verði algerlega í erlendri eigu.

Við eigum nú að gerast djarfari í viðskiptum við svonefnda “erlenda auðhringa” og haga málum svo, að hver framkvæmdin á því sviði geti viðstöðulaust tekið við af annarri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið