Bjánar og brjálæði

Greinar

Hálf bandaríska þjóðin styður George W. Bush forseta á hverju sem gengur. Þótt hver vikan líði með hörmulegum fréttum af utanríkismálum og ríkisfjármálum, halda menn áfram að styðja forsetann. Myndir af mannvonzku bandaríska hersins í Írak hreyfa ekki skoðanir bandarískra kjósenda.

Það er alveg sama, þótt komið hafi í ljós, að stríðinu við Írak var logið upp á Bandaríkjamenn. Það er alveg sama, þótt sýnt hafi verið fram á, að Írak átti alls engan þátt í hryðjuverkum í Bandaríkjunum. Það er alveg sama, þótt bandaríski herinn drepi saklaust fólk í þúsundatali.

Vanheilagt samband ríkisstjórnar George W. Bush og hálfrar bandarísku þjóðarinnar er sérkennileg blanda bjánaskapar og brjálæðis. Sem dæmi má nefna, að fólk, sem á Íslandi og annars staðar í Evrópu væri lokað inni í fámennum sértrúarsöfnuðum, er við stjórnvölinn í Bandaríkjunum.

Hálf bandaríska þjóðin er haldin trúarofstæki og styður krossferðir gegn vantrúarhundum. Þriðjungur repúblikana trúir beinlínis kenningum um að hleypa þurfi öllu í bál og brand í Miðausturlöndum til að tryggja endurkomu Krists á næstu mánuðum eða misserum. Þetta fólk er í ríkisstjórn.

Eins og oft vill verða, fer hroki og hræsni saman við trúarofstækið. Helztu ráðamenn Bandaríkjanna eru ófærir um að hafa rangt fyrir sér og kenna síðan öðrum um, þegar vikulega kemur í ljós, að þeir eru úti að aka. Hálf þjóðin er sátt við, að svona gangi málin viku eftir viku.

Donald H. Rumsfeld stríðsmálaráðherra er frægasta dæmið um óhæfan ráðamann, sem gerði engar ráðstafanir til að skipuleggja hernám Íraks og sagði Íraka mundu strá blómum á bandaríska herinn. Hann gerði heldur engar ráðstafanir til að stöðva stríðsglæpi hersins í Írak, þótt hann vissi um þá.

Bush forseti kann að vera læs, en notfærir sér það ekki. Hann treystir því, sem róttækir brjálæðingar á borð við Condoleezza Rice hvísla að honum. Hann sér heiminn í svart-hvítu og telur sig óskeikulan. Hann fær fyrirmæli frá grimmum guði gamla testamentisins á hverjum morgni.

Hálfri bandarísku þjóðinni þykir allt þetta hið bezta mál. Henni finnst alveg tilvalið að gefa skít í Evrópu, alla fjölþjóðasamninga og Sameinuðu þjóðirnar. Henni finnst frábært að drepa fólk til að frelsa það. Þetta er fólk, sem væri talið vera bjánar og brjálæðingar í öðrum löndum.

Bjánar og brjálæðingar eru alls staðar til og ráða víðar örlögum þjóða. En hvergi annars staðar eru þeir ógnun við öryggi heimsbyggðarinnar og sitja yfir örlögum mannkyns.

Jónas Kristjánsson

DV