Bjargið nú andlitinu.

Greinar

Lesendum er vorkunn að átta sig ekki á stjórnmálasviptingum síðustu vikna. Þingmenn gera sér sjálfir tæpast grein fyrir stöðunni. Enn síður geta þeir spáð um næstu leiki refskákar, sem hefur verið illa tefld af flestra hálfu.

Hinir fáu, sem nenntu að hlusta á eldhúsumræður á mánudaginn, gátu þó staðfest, að margir talsmenn flokkanna ráfa árið 1982 í þoku, hrópandi slagorð frá því fyrir stríð, eins og þeir væru á leiksviði að skopast að stjórnmálum.

Það ætti ekki að vera sextíu mönnum ofraun að fara að vilja þjóðarinnar, sem er, að þeir samþykki bráðabirgðalögin og þrjú fylgifrumvörp þeirra, samþykki ný og sanngjarnari kosningalög og hafi kosningar fljótlega upp úr áramótum.

Margir leiðtogar á þingi haga sér eins og tíminn sé nægur. Sumir hverjir vilja helzt fresta öllum mikilvægum afgreiðslum fram í desember og helzt lengur. Þeir halda, að tíminn leysi mál, sem þeir eru feimnir við.

Ríkisstjórnin og hennar lið hefur lofað fylgifrumvörpum bráðabirgðalaganna, þar á meðal einu um nýja vísitölu, sem aðilar vinnumarkaðsins voru þegar búnir að semja um í ágústbyrjun, hver svo sem nú eru undanbrögð Ásmundar Stefánssonar.

En það eru fleiri en Ásmundur, sem fá hland fyrir hjartað, þegar þeir minnast eigin gerða. Svo fór einnig fyrir formanni Alþýðubandalagsins og þingflokksformanni þess, þegar þeir hlupu út undan sér í faðm stjórnarandstöðunnar.

Fyrir hálfum mánuði voru þeir svo hræddir við eigin verk, að þeir buðu leiðtogum stjórnarandstöðunnar, að sameiginlega flýðu þeir fyrir 1. desember frá ábyrgð á efnahagsmálum og semdu aðeins um kosningalög og nýjar kosningar.

Sem betur fer komst upp um Svavar Gestsson og Ólaf Ragnar Grímsson og höfðu þeir af lítinn sóma. Millispil af þeirra tagi var aðeins til þess fallið að spilla viðræðum stjórnar og stjórnarandstöðu um snertifleti misjafnra áhugamála.

Þær viðræður urðu síðan að einu af hinum frægu “námskeiðum” forsætisráðherra, þaðan sem menn ganga út, vitandi hvorki í þennan heim né annan. Þegar leiðtogar stjórnarandstöðunnar áttuðu sig á þessu, heimtuðu þeir, að stjórnin færi frá.

Síðan hafa foringjarnir brallað áfram, veifað ýmsum hugmyndum um kosningar í febrúar, apríl eða júní, en sem mest forðazt að fjalla um nauðsynlegasta verkefnið, afgreiðslu bráðabirgðalaga og fylgifrumvarpanna fyrir 1. desember.

Inn í vitleysuna kemur svo óbeit þingflokks sjálfstæðismanna á, að Gunnar Thoroddsen hafi einhvern veg af nýrri stjórnarskrá. Fremur vill þingflokkurinn enga stjórnarskrá en þá, sem tengd yrði nafni hans!

Hugsanlega gæti Gunnar boðið Geir Hallgrímssyni upp á að hætta þingmennsku eftir kjörtímabilið gegn því, að stjórnarskrá nái fram að ganga og að kosningar verði að fullgerðu slíku samkomulagi, jafnvel í febrúar eða marz, ef vel er unnið.

Slíkt samkomulag mætti gera samhliða heildarsamkomulagi um afgreiðslu bráðabirgðalaga og helztu fylgifrumvarpa þeirra, afgreiðslu nýrra kosningalaga og loforði forsætisráðherra um þingrof og kosningar á umsömdum degi.

En hvað sem líður stjórnarskrá og innanhússmálum Sjálfstæðisflokksins, er kominn tími til, að sextíumenningarnir á alþingi hætti lélegri taflmennsku í refskák og snúi sér að því að bjarga andlitinu með því að gera það, sem gera þarf.

Jónas Kristjánsson

DV