Bjartsýnisstofnunin.

Greinar

Hafrannsóknastofnunin er óneitanlega með seinni skipunum, er hún mælir með 300 þúsund tonna þorskafla á ári, sem þegar er hálfnað og þegar hefur sýnt, að aflinn verður ekki meiri, hvað sem of stór floti skarkar.

Rétt fyrir áramótin mælti stofnunin með 350 þúsund tonna þorskafla á þessu ári, þótt þá þegar væri ljóst, að hættumörkin voru mun neðar eða við 300 þúsund tonn. Þetta gerði hún til að þóknast þáverandi sjávarútvegsráðherra.

Steingrímur Hermannsson, sem nú er orðinn forsætisráðherra, gaf um þetta leyti út minnisstæða yfirlýsingu, sem hljóðaði svo: “Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.”

Steingrímur taldi tímabundna ofveiði réttlætanlega vegna erfiðleika þjóðarbúsins. Hann vildi ekki eða gat ekki séð fyrir sér, hvernig ofveiði þorskstofnsins mundi fyrr eða síðar leiða til enn meiri vandræða þjóðarbúsins.

DV sagði þá í leiðara:

“Vandséð er, að það sé í verkahring fiskifræðinga að spá um þol þjóðarbúsins eða Steingríms Hermannssonar. Enda væri nú mikið hlegið að Hafrannsóknastofnuninni, ef mönnum væri hlátur í hug í aðvífandi kreppu.

Hafrannsóknastofnunin átti auðvitað að leggja til 300 þúsund tonna þorskafla á næsta ári og láta pólitíska valdið í landinu um að lyfta þeirri tölu upp í það, sem þjóðarbúið þolir að mati Steingríms Hermannssonar.

Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti, sem Hafrannsóknastofnunin ruglast í hlutverki sínu. Löngu er orðið tímabært, að Jón Jónsson hætti að leika stjórnmálamann og fari í staðinn að snúa sér að fiskifræðinni.”

Það hefur löngum verið böl íslenzkra fiskistofna, að Hafrannsóknastofnunin gefur út gífurlega bjartsýnar tölur, sem byggja ekki á vísindum, heldur á mati forstjórans á, hvað viðkomandi sjávarútvegsráðherra vilji heyra.

DV sagði við sama tækifæri:

“Ekki þarf mikla greind til að sjá, að auðveldasta leiðin til að setja þjóðarbúið á höfuðið er að halda áfram að ofveiða þorskinn. Það verður ekki mörgum sinnum hægt að veiða 350 þúsund tonn úr 1.500 þúsund tonna heildarstofni.

Sjálfur hrygningarstofninn er kominn niður í 560 þúsund tonn og fer ört minnkandi. Enda eru stórir árgangar alveg hættir að bætast við. Fljótlega verður 300 þúsund tonna ársafli meira að segja of mikill.”

Þessi síðasta aðvörun var raunar nærtækari en þá var vitað. Hafrannsóknastofnunin segir nefnilega núna, að þorskstofninn sé kominn niður í 1.300 þúsund tonn og hrygningarstofn hans niður í 420 þúsund tonn.

Það sígur því hratt á ógæfuhliðina, meðan hver ístöðulítill sjávarútvegsráðherra á fætur öðrum rekur þá ofsafengnu smábyggðastefnu að láta veita togarakaupendum um 100% lán, sem aldrei verða endurgreidd.

Þannig var þurrkuð upp síldin og þannig var þurrkuð upp loðnan. Næstur er þorskstofninn, sem verið er að útrýma með opinberum lánum til kaupa á skipum, sem þjóðin þarf ekki og sem raunar eru stórkostlega skaðleg þjóðinni.

Við slíkar aðstæður er hart, að Hafrannsóknastofnunin skuli gefa út bjartsýnar tölur, sem ólánsmenn vilja heyra.

Jónas Kristjánsson.

DV