Björk gerði vel, þegar hún söng “Tíbet, Tíbet” aftast í lagi sínu: “Declare Independence”. Hafði áður gert slíkt út af Kosovo, Grænlandi og Færeyjum. Kínverskum aðdáendum hennar á tónleikunum í Sjanghai var samt brugðið. Þeir óttuðust, að löggan mundi koma og taka sig fyrir að taka þátt í andófi. Þeir flýttu sér af vettvangi. Kínverjar eru meðvitaðir um, að þeir verði að gæta sín á stjórnvöldum. Söngur Bjarkar og hrædd viðbrögð áheyrenda eru góð áminning um, að Kína er ekki bara himnaríki fjárplógsmanna, heldur einnig heimsins hæsti þröskuldur í vegi lýðræðis. Er stærsta þrælaríki heimsins.