Síðdegisblöðin Vísir og Dagblaðið sameinuðust fyrir aldarfjórðungi í DV eftir harða samkeppni í sex ár. Þá voru aðrir tímar en nú, verkföll voru tíð og höfðu dregið mátt úr öllum dagblöðum. Sameiningin bætti fjárhaginn og lagði grundvöll að vel reknu blaði, sem þjónaði lesendum betur en blöðin tvö höfðu bolmagn til að gera.
Sameiningin dró síður en svo úr samkeppni, heldur leiddi til fjörugri blaðaútgáfu en áður hafði þekkzt. DV var í tvo áratugi einn af hornsteinum þjóðfélagsins, þekkt fyrir fréttir af ýmsu, sem leynt fór í þjóðfélaginu. Það var lengi eina dagblaðið, sem var óháð stjórnmálaöflum og naut þeirrar sérstöðu í vinsældum almennings.
Upp úr aldamótum varð sú breyting á rekstrinum, að óspart var farið að draga fé úr blaðinu til að fjármagna ýmis ævintýri á öðrum vettvangi. Það veikti stöðu blaðsins snöggt, svo að það var selt aðilum, sem voru tengdir pólitík og settu blaðið lóðrétt á hausinn árið 2003. Nokkru síðar var það endurvakið af nýju fólki í nýrri mynd, en náði ekki fyrri vinsældum.
Í vor var DV gert að vikublaði til að ná nýju jafnvægi í rekstri. Það hefur síðan gengið nógu vel til þess, að nú er verið að undirbúa fjölgun útgáfudaga. Enn er DV blað, sem einkum sækir efni sitt til lífs fólksins í landinu fremur en til yfirstéttarinnar. Það segir frá atburðum, sem öðrum fjölmiðlum þykja meira eða minna óviðurkvæmilegir.
Þótt líf og fjör sé í fjölmiðlun á Íslandi um þessar mundir, verður alltaf þörf á blaði að hætti síðdegisblaða, sem er óhrætt við að taka upp mál og menn, sem stinga í stúf við hefðbundið efni fjölmiðla. Rannsóknablaðamennska hefur ætíð verið ríkur þáttur blaðsins, á síðustu misserum í meira mæli en nokkru sinni fyrr. DV var upphaflega hugsað sem blað almennings og er slíkt blað enn þann dag í dag.
Jónas Kristjánsson
DV