Blaðafulltrúar sérhagsmuna.

Greinar

Þeir, sem hafa farið í fjölmiðla með gagnrýni á kerfi hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda, eiga það sameiginlegt að hafa engra hagsmuna að gæta. Sem óháðir þáttakendur í opinberri umræðu telja þeir sig vera að verja almannahagsmuni fyrir sérhagsmunum.

Hinir, sem verja kerfið, eiga það svo aftur á móti sameiginlegt að vera launaðir starfsmenn þess og raunar stjórnendur þess. Þeir eru að verja atvinnu sína hjá stofnunum kerfisins og þau völd, sem þær hafa yfir landbúnaði og raunar þjóðfélaginu í heild.

Þetta eru formenn og framkvæmdastjórar og blaðafulltrúar þriggja stofnana, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Þar með eru taldir núverandi og fyrrverandi ritstjórar Freys, þegar þeir fara í aðra fjölmiðla.

Freyr er gefinn út sameiginlega af Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands. Með Framleiðsluráði landbúnaðarins hafa þessar stofnanir sameiginlegan blaðafulltrúa, er kemst þó ekki einn yfir að verja hinn þríhöfða þurs, sem rekinn er fyrir almannafé.

Til aðstoðar Agnari Guðnasyni blaðafulltrúa koma Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda, Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, Jónas Jónsson, forstjóri Búnaðarfélags Íslands, og Gunnar Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ef mikið liggur við eins og nú, þegar verja þarf fyrirhugaða eggjaeinokun, ern sóttir til viðbótar fyrrverandi og núverandi ritstjórar Freys, þeir Gísli Kristjánsson og Matthías Eggertsson. Einstaka sinnum koma í ljós aðrir starfsmenn hins þríhöfða þurs.

Það, sem allir þessir menn skrifa í fjölmiðla, eru ekki kjallaragreinar í venjulegum skilningi þess orðs. Þær eru ekki framlag óháðs borgara til opinnar umræðu í landinu. Þær eru skrif eins konar blaðafulltrúa til stuðnings sérhagsmunum vinnuveitanda hans.

Afleiðingin verður eins konar eintal hinna, sem skrifa út frá almannahagsmunum. Þeir hlaða upp ótal röksemdum, sem blaðafulltrúar sérhagsmunanna geta með engu móti svarað. Níu af hverjum tíu efnisatriðum gagnrýninnar er hreinlega aldrei svarað efnislega.

Í staðinn finna blaðafulltrúarnir sér önnur vopn. Algengast er, að þeir grípi til sálfræðinnar og úrskurði, að hatur á landbúnaði sé að baki gagnrýni manna á kerfi hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda. Hatursmennirnir eru sagðir ala á úlfúð og illgirni.

Einstaka sinnum færist meira útflúr í þessa sálgreiningu. Þá skýtur upp kenningum um, að hatur á landbúnaði sé ýmist ættgengt og þá frá Grenjaðarstað eða héraðsbundið og þá frá Austur-Húnavatnssýslu. Hjáfræði af þessu tagi hafa færzt í aukana upp á síðkastið.

Ennfremur er einokunarhneigð kerfis hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda varin með því að halda fram, að einokun ríki hjá DV, sem birtir flestar kjallaragreinarnar. Það er eins og þeim finnist DV vera eitt í heiminum, en ekki eitt af fimm dagblöðum og sjö fjölmiðlum alls.

Þegar þeir sjömenningar hafa lokið sálgreiningunni, ættfræðinni, landafræðinni og fjölmiðlafræðinni, er yfirleitt rokinn úr þeim allur vindur. Sem blaðafulltrúar sérhagsmuna hafa þeir nefnilega fátt til varna, ef ræða á efnislega um kerfi hins hefðhbundna landbúnaðar. Sá þríhöfða þurs er óverjandi.

Jónas Kristjánsson.

DV