Blaðamaðurinn í flórnum

Greinar

Flestir félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands eru í öðru starfi en blaðamennsku, sennilega af því að grænni hagar eru handan við girðingarnar. Við þessu er ekkert að gera, en eftirsjá er að góðu fólki yfir í störf blaðurfulltrúa og ímyndarhönnuða fyrir valdamikla aðila í þjóðfélaginu.

Helmingur af restinni eru kontóristar, án þess að með því sé meint neitt ljótt. Það táknar aðeins að fólk fær tölvupóst, klippir úr honum og límir inn í blöð og tímarit, útvarp og sjónvarp. Þetta er vinna, sem þarf að vinna, en snertir ekki nema brot af viðfangsefnum, sem menn læra í blaðaskólum.

Of stór hópur blaðamanna vinnur við eins konar jaðarstörf á gráu svæði auglýsinga. Í gamla daga voru gefin út aukablöð, þar sem birt voru viðtöl við auglýsendur. Enn þann dag í dag býður Frjáls verzlun upp á aukablað um konur, þar sem hægt er að fá viðtal gegn auglýsingu. Slík blöð kallast hóruhús.

Með sjónvarpi hafa hóruhúsin orðið fjölbreyttari. Sumir þættir lifa á kostun fyrirtækja, sem hafa hagsmuna að gæta. Tímarit ganga langt í auglýsingatenginu efnisþátta og lengst allra gengur Lifun, sem Morgunblaðið gefur út og sýnir alls engin mörk efnis og auglýsinga, er eitt samfellt hóruhús.

Hversdagsleg tímarit eru full af vörukynningum, sem borgað er fyrir, svo sem víni vikunnar eða þá af lofi um ágæti veitingahúsa, sem borga fyrir vikið. Þetta hefur lítt sézt í dagblöðum, en ýmsir efnisþættir í Blaðinu benda þó til, að þar sé sjúklegt samhengi milli auglýsinga og efnisvals.

Mjög lítill hluti af félagsmönnum í Blaðamannafélaginu vinnur við alvöru blaðamennsku, eins og hún er kennd í erlendum blaðaskólum. Fáir blaðamenn hafa atvinnu af að efast um upplýsingar, sem flæða sjálfvirkt til þeirra, og reyna í staðinn að skyggnast bak við bullið á yfirborðinu.

Góðir blaðamenn eru á öllum fjölmiðlum, en þeir eiga sums staðar erfiðara uppdráttar en eðlilegt er. Góðir blaðamenn velta fyrir sér, hvort þeir hafi náð öllu, sem segir þér, hver gerði hvað, hvar og hvenær, hvernig og hvers vegna og einkum hvað gerist svo. Rannsóknablaðamennska er fámenn.

Það skrítnasta í þessum heimi er, að bara einn er skammaður fyrir frammistöðu sína. Það er blaðamaðurinn, sem vinnur eftir kennslubókinni. Hann er sagður vera á kafi í flórnum.

DV