Blaðurfulltrúar

Greinar

Lengi hefur hugtakið og orðaleikurinn “blaðurfulltrúi” verið notað í gamni yfir þá, sem beinlínis eru ráðnir af stórum stofnunum og fyrirtækjum til að reka úr túninu, ef óviðkomandi aðilar eru að ráfa inn á yfirráðasvæði þess, sem greiðir blaðurfulltrúanum laun.

Þekkt dæmi af þessum toga var lengi vel Póstur og sími. Þar var árum saman blaðurfulltrúi, sem tók til penna, í hvert sinn sem lesendabréf eða önnur athugasemd birtist um stofnunina í fjölmiðli. Þema svaranna var, að engin gagnrýni ætti nokkurn rétt á sér.

Í nokkur ár hafa nýir menn stjórnað Pósti og síma og viljað breyta ímynd einokunarfyrirtækisins. Nú er ekki lengur hafður þar hefðbundinn blaðurfulltrúi til að útskýra, að þjóðinni sé fyrir beztu, að henni sé nauðgað, heldur fremur lögð áherzla á að lofa bót og betrun.

Áður var því til dæmis haldið fram af Pósti og síma, að þjóðin hefði bara ama og óþægindi af sundurliðun símreikninga. Nú segist stofnunin hins vegar vera að undirbúa slíka reikninga, en hinn góði vilji hennar sé heftur af þriðja aðila, sem sé óviðkomandi stofnuninni.

Flugleiðir eru um þessar mundir sú einokunarstofnun, sem helzt telur sig þurfa á því að halda, að rekið sé úr túninu. Þar er ráðinn sérstakur fulltrúi til að lofa ekki bót og betrun, heldur útskýra öll vandamál í burtu, þannig að þau eigi í raun að teljast öllum fyrir beztu.

Á sama tíma og Póstur og sími er að reyna að losa sig frá einokunarímyndinni, eru Flugleiðir orðnar svo samgrónar sinni einokun, að hvorki gerist þar seinkun né vélarbilun, að ekki sé unnt að útskýra, að það sé óbeint og stundum jafnvel beinlínis í þágu farþega.

Flugleiðir eru einokunarfyrirtæki í hlutafélagsformi. Ríkið var lengi eignaraðili og heldur með ýmsum hætti verndarhendi yfir stofnuninni. Það hefur veitt henni undanþágur frá ýmsum gjöldum og leyfir starfsmönnum hennar að hafa áhrif á gang mála í Flugráði.

Mikilvægast í ástarsambandi ríkis og Flugleiða er einokunin, sem stofnuninni er veitt á ýmsum sviðum, svo sem í áætlunarflugi innan lands og utan, svo og í afgreiðslu flugvéla frá öðrum aðilum. Þessa einokun ver stofnunin og blaðurfulltrúi hennar með klóm og kjafti.

Þessa dagana er einokunarstofnunin að amast við, að fólk hafi aðgang að miklu ódýrara millilandaflugi en hægt er að fá hjá henni sjálfri. Hún klagar út og suður, að fólk skuli aftur geta komizt til útlanda fyrir kristilegar fjárhæðir eftir nokkurt hlé á því sviði.

Á sama tíma er blaðurfulltrúi Flugleiða að útskýra, að þjóðinni sé fyrir beztu, að einokunarstofnunin fórni sér í að halda uppi einokun á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli, svo að ríkið þurfi ekki að vasast í að finna nýja lausn á því máli. Og svo hækka gjöldin jafnt og þétt.

Einokun Flugleiða á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli hamlar gegn, að Íslendingar geti beitt vöruflugi til að nýta markaðstækifæri fyrir ýmsar sjávarafurðir í Bandaríkjunum og Japan. Ráðamenn Flugleiða láta jafnan reka úr túninu, þegar þetta er nefnt.

Þar sem menn vita, að meira mark er takandi á rökum þriðju aðila, sem ekki hafa hagsmuna að gæta, heldur en launaðra fulltrúa einokunarstofnana, hefur blaðurfulltrúi Flugleiða nú flúið inn í síðasta vígið og segir gagnrýnendur vera að þjóna sínum illu hvötum.

Framganga Flugleiða í heild sýnir, að fyrirtækið hyggst ekki bæta ráð sitt eins og Póstur og sími, heldur halda dauðahaldi í forréttindi sín í ríkisnáðinni.

Jónas Kristjánsson

DV