John Houghton, fyrrum forstjóri brezku veðurstofunnar, skrifar grein í Guardian og sakar Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, um heigulshátt vegna óbeins stuðnings við aðgerðarleysi George W. Bush Bandaríkjaforseta gagnvart hækkuðu hitastigi á jörðinni. Houghton telur þurrka, flóð, fárviðri og aðrar náttúruhamfarir af völdum aukins hita vera hættulegri en hryðjuverk. Hann segir Bretland standa meginlandi Evrópu langt að baki í aðgerðum gegn gróðurhúsaáhrifum. Raunar telur Houghton, að marktækur árangur náist ekki meðan Bandaríkin neita að undirrita Kyoto-sáttmálann.