Þótt nýtt álver í Straumsvík auki þjóðarframleiðslu, er margt, sem getur komið í veg fyrir, að það verði okkur óblandið ánægjuefni. Sumt af því þekkjum við frá Ísal, sem þar er fyrir, eða getum gert okkur grein fyrir, einmitt í ljósi reynslunnar af fyrsta stóriðjuverinu.
Að þessu sinni eru sjónarmið byggðastefnu miklu harðvítugri en þau voru, þegar Ísal var reist. Reyðfirðingar, Akureyringar og Sunnlendingar hafa heimtað þetta álver eða annað álver til sín. Málgagn iðnaðarráðherra þræðir slík ver daglega upp á fréttakrókinn.
Einn gæludýraforstjórinn á Akureyri hefur lagt til, að gerð verði byggðakaup um álverið. Reykvíkingar og Reyknesingar afsali sér einhverjum öðrum gæðum í skiptum fyrir álver í Straumsvík, til dæmis fiskveiðikvóta. Ummæli hans gefa tóninn um framhaldið.
Reykvíkingar og Reyknesingar hafa ekki verið spurðir um, hvort þeir vilji fá álver. Ólíklegt er, að þeim sé það slíkt hjartans efni, að þeir séu reiðubúnir að fórna því sínum litlu molum af nægtaborði skömmtunarstjóranna í ráðherrastólum núverandi ríkisstjórnar.
Líklegra er, að Reykvíkingar og Reyknesingar væru fegnir að sjá á eftir álverinu og vandamálum þess til Reyðarfjarðar, Akureyrar eða Þorlákshafnar. Gallinn er bara sá, að útlendingarnir, sem borga brúsann, vilja ekki leggja krónu í hina séríslenzku byggðastefnu.
Kísilmálmverksmiðjan varð aldrei að raunveruleika, af því að hún var bundin við Reyðarfjörð. Ef hana hefði mátt byggja við hlið járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, væri hún nú í smíðum, af því að útlendingarnir hefðu þá talið hana nokkurn veginn arðbæra.
Ætlunin er að nota fyrirhugað álver í Straumsvík til að hefja nýjan öfundarsöng í garð Reykjavíkursvæðisins. Því er nærtækt að sleppa álverinu, alveg eins og við létum kísilmálmverksmiðjuna eiga sig. Næg er spenna dreifbýlis og þéttbýlis, þótt álver bætist ekki við.
700900 manns þarf til að reisa álverið nýja og virkjanir, sem því fylgja. 400500 manns þarf til að reka verið, þegar það er fullgert. Hvort tveggja veldur töluverðri þenslu, þótt á Reykjavíkursvæðinu sé. Hún leggst ofan á hina miklu þenslu, sem fyrir er á þessu svæði.
Stjórnvitringar okkar geta varla litið upp úr vandræðalegri og vonlausri baráttu sinni við að koma niður verðbólgu og vöxtum í landinu og að ná jafnvægi í atvinnulífi þjóðarinnar. Nýtt álver mun gera þetta eilífðarstríð þeirra enn minna marktækt en það er núna.
Ekki hefur verið mikið fjallað um, hve hættulegt er að hafa mörg egg í einni körfu. Ef við gerum útflutning áls að uppsprettu þriðjungs útflutningstekna okkar, erum við orðin eins háð heimsmarkaðsverði áls og sumar þjóðir þriðja heimsins eru háðar sinni einhæfu stóriðju.
Ekki er nóg með, að við lendum í dæmigerðum þriðja heims vanda í sveiflum verðs á áli sem útflutningsafurðar. Að auki koma svo sveiflur orkuverðs, sem sennilega verða látnar fylgja heimsmarkaðsverði áls. Það hefur nú á hálfu öðru ári sveiflazt milli 12,5 og 18,5 mills.
Einnig er áhyggjuefni, að hugsjónamenn stóriðju gera ráð fyrir, að nýtt álver í Straumsvík gleypi flesta hagkvæmustu virkjanakostina. Það þýðir óbeint, að við þurfum síðar að virkja dýrar fyrir okkur sjálf, og hækkar þannig óbeint orkuverð til almennings í framtíðinni.
Aukin byggðaöfund, þensla, mengun og einhæfni og hækkað orkuverð almennings eru atriði, sem við verðum að hafa í huga, áður en við fögnum nýju álveri.
Jónas Kristjánsson
DV