Bláþráðarstefna

Greinar

Ríkisstjórninni og málsvörum hennar hefur ekki gengið greiðlega að sannfæra menn um, að rétt sé að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta sýnir skoðanakönnun DV og mótþrói í þingflokkum ríkisstjórnarinnar.

Þetta er ekki séríslenzkt fyrirbæri. Annars staðar í Evrópu hefur komið í ljós, að rótgróinn mótþrói er gegn tilraunum stjórnvalda til að efla fjölþjóðlegt samstarf á þann hátt, að hluti af fullveldi þjóðanna sé fluttur úr landi til miðstýringar mandarínanna í Bruxelles.

Brezka ríkisstjórnin vanmat stuðning þingmanna sinna við aukið samstarf í Evrópusamfélaginu. Áður hafði danska ríkisstjórnin ofmetið gagnið af stuðningi leiðtoga helztu stjórnmálaflokka landsins við sama mál. Einnig hafði franski forsetinn gert svipuð mistök.

Röksemdir gegn þjóðaratkvæðagreiðslu byggjast einkum á, að hér sé óbeint lýðræði í formi þingræðis án sérstakrar hefðar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og að kjósendur mundu margir hverjir hafa ýmislegt annað í huga en efni málsins, þegar þeir greiddu atkvæði.

Síðari röksemdin er ekki þung á metunum, því að á svipaðan hátt mætti rökstyðja, að kjósendur ættu ekki heldur að fá að greiða atkvæði í kosningum, af því að þeir séu með alls konar annarleg og óviðkomandi sjónarmið í huga, þegar þeir athafni sig í kjörklefanum.

Fyrri röksemdin er mikilvægari, af því að þjóðin felur alþingismönnum að fara með lýðræðið milli kosninga. Það veikir hana hins vegar, að núverandi þingmenn voru kosnir við aðrar aðstæður en nú eru og lýstu þá öðrum sjónarmiðum en nú heyrast frá þeim.

Snúningurinn virkar í báðar áttir. Stjórnarskipti hafa orðið. Þeir, sem áður vildu tvíhliða viðskiptasamning við Evrópusamfélagið, vilja nú aðild að Efnahagssvæðinu. Þeir, sem áður undirbjuggu aðild, eru núna andvígir útfærslunni, sem samkomulag náðist um að lokum.

Í rauninni er spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu þess eðlis, að fylgjendur hennar og andstæðingar geta hvorir um sig fundið frambærileg rök fyrir sínum málstað. Það er svo einnig ljóst, að úti í þjóðlífinu ríkir yfirgnæfandi stuðningur við slíka atkvæðagreiðslu.

Það kemur líka í ljós, að stuðningsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu eru ekki endilega andvígir aðild að Efnahagssvæðinu. Margir stuðningsmenn aðildarinnar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt þeim sé kunnugt um hættuna á, að aðildin verði felld á slíkan hátt.

Einnig kemur í ljós í nýrri skoðanakönnun DV, að stuðningur við Efnahagssvæðið fer heldur vaxandi, enda er líklegt, að dregið hafi úr andstöðu fólks eftir skoðun auglýsinga í fjölmiðlum, þar sem fram kom eindreginn stuðningur helztu áhrifaafla atvinnulífsins við aðildina og trú þeirra á gildi hennar fyrir okkur.

Það er ekki gott veganesti fyrir ríkisstjórn að ná að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu með bláþráðar-meirihluta á Alþingi og þurfa að búa við framhald á mótþróa í eigin stuðningsflokkum. Það er í rauninni allt of fátæklegt veganesti í einu mesta stórmáli áratugarins.

Við stöndum ekki einungis andspænis aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur kemur fljótlega til umræðu, hvort við töpum á að fylgja ekki Norðurlandaþjóðum inn í sjálft Evrópusamfélagið, úr því að samrunaþróun þess hefur blessunarlega stöðvazt að sinni.

Reynsla er fyrir því í nágrannalöndunum, að það borgar sig að hafa fólkið með sér, þegar kemur að örlagaríkum ákvörðunum, sem varða fullveldi þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV