Bleika skýið er horfið

Greinar

Heimskreppa er ekki í aðsigi, þótt verðbréfamarkaðurinn í Wall Street hafi á mánudaginn var tekið dýfu, sem tölulega séð jafnast á við svarta fimmtudaginn á sama stað fyrir tæpum sex áratugum. Dýfan hefur stöðvazt og mun ekki hafa veruleg áhrif til skamms tíma.

Líkja má verðlagi pappíra í Bandaríkjunum við blöðru, sem einfeldningar, bjartsýnismenn og Reaganistar hafa verið að þenja út í fimm ár og hættulega mikið síðasta árið. Nú hefur blaðran verið sprengd og verðlagið hefur nálgast gráan raunveruleikann.

Reikna má með, að stjórn Reagans Bandaríkjaforseta geti ekki lengur flotið á bleiku skýi í fjármálum. Hún neyðist til að hefja baráttu við geigvænlegan halla á rekstri ríkisins og á utanríkisviðskiptum landsins. Hún lærir sennilega mánudagslexíuna frá Wall Street.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum og víðar hafa undanfarnar vikur spáð dýfunni, svo að hún átti ekki að koma á óvart þeim, sem hagsmuna hafa að gæta. Öll lögmál bentu til, að blaðran hlyti að springa fyrr en síðar, því að ekki er hægt að fljóta á bleiku skýi til eilífðarnóns.

Það var ekki aðeins í Bandaríkjunum, að verðlag hlutabréfa var komið langt fram úr afkastagetu bréfanna til arðgreiðslu. Einnig í Japan hlaut slík blaðra að springa og gerði það. En víða annars staðar í heiminum voru dýfurnar minni og jöfnuðu sig fljótt og vel.

Til langs tíma er aðalhættan sú, að útlendingar fái varanlega ótrú á fjárfestingu í Bandaríkjunum og dragi jafnvel til baka fjármagn, sem þeir hafa fjárfest þar. Slíkt mun hafa alvarleg áhrif á hagþróun vestra og á kaupgetu fólks, sem hefur vanizt að lifa um efni fram.

Sennilega hefur þetta lítil áhrif á helztu útflutningsafurð Íslendinga, freðfiskinn. Hann er matur, sem fólk vill og getur síður sparað við sig en margt af eyðsluvörunum. Fiskur verður því áfram keyptur og ætti að geta haldið eðlilegum verðhlutföllum, miðað við annan mat.

Þá eru ekki heldur teikn á lofti um, að dollarinn muni halda áfram að falla gagnvart hörðu gjaldmiðlunum og magna enn frekar þann halla okkar, sem stafar af tiltölulega mikilli sölu í dollurum og miklum kaupum í annarri mynt. Dollarinn hefur þegar fallið nóg.

Að sjálfsögðu þurfum við að fylgjast vel með þróun mála. Við rekum sérhæft atvinnulíf og erum þjóða háðastir viðskiptum við önnur ríki. Allar dýfur í viðskiptalöndunum eru óþægilegar. Verstar eru útblásnar blöðrur, sem springa skyndilega og jafnvel óvænt.

Vítahringur Bandaríkjanna var ekki flókinn. Gífurlegur viðskiptahalli rýrði gengi dollarans í sífellu. Gengissigið framkallaði vaxtahækkanir, sem gerðu hlutabréf arðminni en áður. Framan af neituðu menn að horfast í augu við þetta og fengu loks stóran skell.

Við getum lært af þessu hér norður í höfum. Við búum við gífurlegan viðskiptahalla, samfara krampakenndri fastgengisstefnu og ótrúlegri tregðu ríkisstjórnar við að draga saman seglin í ríkisrekstri. Við fáum af þessu efnahagslega skelli eins og Bandaríkjamenn.

Kauphallarhrunið getur orðið öllum ríkjum til góðs, ef menn læra af reynslunni. Bandaríkjamenn geta til dæmis farið að snúa sér að öflun tekna með samkeppnishæfri framleiðslu og að minnkaðri ofneyzlu. Og eftir rúmt ár fer Reagan forseti hvort sem er frá völdum.

Við Íslendingar megum svo hætta að trúa, að leiðtogar okkar geti komið okkur hjá óþægindum með því að reisa stíflur, er stöðvi framrás efnahagslegra fljóta.

Jónas Kristjánsson

DV