Blendinn heiður

Greinar

Gesturinn, sem utanríkisráðherra okkar hittir í dag í Leifsstöð, hefur markað ógeðfelld spor í stjórnmálasögu Vesturlanda. James Baker, hinn nýi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, innleiddi í fyrra hina neikvæðu baráttu í undirbúning forsetakosninga vestanhafs.

Baker var starfsmannastjóri Reagans Bandaríkjaforseta, en sagði af sér til að geta stjórnað kosningabaráttu George Bush. Hann var þar yfirmaður illræmdra ímyndarfræðinga á borð við Lee Atwater og Roger Ailes. Þessir þrír sáu um að draga baráttuna niður í svaðið.

Hin neikvæða kosningabarátta, sem þeir félagar komu á fót undir stjórn Bakers, fólst í, að beina athyglinni frá eigin frambjóðanda með því að koma á kreik gróusögum í garð hins og rækta gegn honum margvíslega fordóma, sem blunda undir niðri hjá kjósendum.

Eiginkona mótframbjóðandans var sökuð um að hafa í skóla brennt bandaríska fánann. Hann sjálfur var gerður grunsamlegur, af því að hann var af lögfræðilegum grundvallarástæðum andvígur ákveðnu orðalagi, sem margir vildu hafa í starfseið embættismanna.

Þetta var notað til að koma inn hjá kjósendum, að Michael Dukakis væri óþjóðlegur og hættulegur. Um leið var spilað á, að undir niðri vissu kjósendur, að hann er af grískum ættum. Tækni ímyndarfræðinga felst einmitt í að rækta slíkar hugrenningar fáfróðra.

Verra var, að Baker gerði Willie Horton að hornsteini kosningabaráttunnar. Horton þessi er glæpamaður, sem framdi óhugnanlegan glæp í helgarleyfi úr fangelsi. Dukakis hafði sem ríkisstjóri á sínum tíma stutt, að fangar fengju helgarleyfi við ákveðnar aðstæður.

Inn í höfuð áhorfenda lét Baker sjónvarpið hamra auglýsingar, sem gáfu undir niðri í skyn, að óöld mundi hefjast, ef Dukakis næði kosningu. Morðingjar og nauðgarar mundu leika lausum hala undir sérstakri vernd hins útlenzka hatursmanns þjóðarinnar og fánans.

Í auglýsingum Bakers var líka sagt berum orðum, að geislunarhætta væri í höfninni í Boston. Í því skyni var síbirt fölsuð mynd, sem tekin var á viðgerðaverkstæði kjarnorkukafbáta. Á þessum ósannindum var tönnlast í sífellu, unz kjósendur fóru að trúa.

Í rauninni var höfnin í Boston bara menguð, eins og svo margar hafnir í Bandaríkjunum. Frá þeirri mengun og til ríkisstjórans í Massachusetts var óralangur vegur. En Baker tókst að tengja þetta saman og gera Dukakis að krabbameinsvaldi í sálum huglatra kjósenda.

Þetta eru aðeins örfá sýnishorn af ósómanum, sem James Baker velti sér upp úr sem yfirmaður kosningastjórnar Bush. Eftirminnilegt er einnig, hvernig honum tókst að gera orðið “frjálslyndur” að skammaryrði og próf frá Harvard-háskóla að eins konar sakavottorði.

Auðvitað er það fyrst og fremst bandarískum kjósendum að kenna, að hin ógeðfellda kosningabarátta náði árangri. Hún gafst svo vel, að menn Dukakis tóku hana upp um síðir. Framvegis má því búast við, að kosningabarátta í Bandaríkjunum verði háð í svínastíunni.

Þetta er alvarlegt áfall lýðræðinu í heiminum. Félagsvísindaleg og sálvísindaleg tækni nútímans kemur frá Bandaríkjunum. Þar eru sérfræðingarnir, sem hafa náð lengst í að móta hugi fólks með því að spila á sálarflækjur þess. Aðferðir Bakers kunna að berast víðar.

Þess vegna er blendinn heiður af að taka í Leifsstöð á móti gesti, sem er á of lágu siðastigi til að geta talizt stofuhæfur á íslenzkum stjórnmálamælikvarða, ­ ennþá.

Jónas Kristjánsson

DV