Blindni víki fyrir trausti

Greinar

Bandaríkin hafa hert reglur um beinar og óbeinar greiðslur til stjórnmálanna. Eftir uppljóstranir um fjármál orkufyrirtækisins Enron náðist góður meirihluti í bandarísku fulltrúadeildinni fyrir auknum takmörkunum við greiðslum til verkefna, sem óbeint tengjast framboðsmálum.

Enron var fyrirferðarmikið í einkavæðingu orkugeirans í Bandaríkjunum. Það greiddi miklar fjárhæðir til kosningabaráttu Bush Bandaríkjaforseta og annarra frambjóðenda, sem tengdust honum. Fyrirtækið fékk í staðinn að hafa áhrif á framvindu einkavæðingar orkugeirans.

Í Bandaríkjunum hefur lengi verið talið sjálfsagt, að allar fjárreiður, sem tengjast stjórnmálum, séu gegnsæjar almenningi. Þess vegna er nákvæmlega vitað, hvað hver kosningabarátta kostaði og hversu mikið af peningunum kom frá frekum hagsmunaaðilum á borð við Enron.

Þannig vitum við, að Michael Bloomberg greiddi sem svarar sjö milljörðum króna til að verða borgarstjóri í New York, að mestu leyti úr eigin vasa. Þannig vitum við, að George W. Bush greiddi sem svarar tuttugu milljörðum króna til að verða forseti, sumpart frá Enron.

Flest ríki Vesturlanda hafa fetað sömu slóð og Bandaríkin á þessu sviði. Annars vegar hafa þau sett lög, sem gera fjárreiður stjórnmálanna gegnsærri. Hins vegar hafa þau sett lög, sem takmarka fjárhæðir, sem einstakir aðilar geta látið renna beint eða óbeint til stjórnmálanna.

Ísland hefur hvorugt gert, jafnvel þótt ljóst megi vera, að vandamál, sem skotið hafa upp kollinum á Vesturlöndum almennt, láti einnig á sér kræla hér á landi. Einstaka stjórnmálamenn hafa reynt að hreyfa málinu, en mætt harðri andstöðu annarra, einkum Sjálfstæðisflokksins.

Fréttir af græðgi áhrifamanna í stórfyrirtækjum hér á landi, einkum þeim, sem hafa verið á leið til einkavæðingar, benda til, að kjósendur hefðu gagn af að vita, hversu mikið fé þessir menn hafa látið fyrirtækin greiða til pólitískra hagsmuna, sem varða til dæmis einkavæðinguna.

Við vitum af samanlögðum auglýsingum baráttunnar fyrir síðustu alþingiskosningar, að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin voru með svo rúm fjárráð, að miklar summur hlutu að renna til þeirra frá fjársterkum aðilum, sem enn þann dag í dag er ekki með vissu vitað, hverjir voru.

Fyrst og fremst er það landlægt kæruleysi kjósenda, sem veldur því, að þeir hafa ekki knúið stjórnmálaflokkana til að setja lög um gegnsæjar fjárreiður stjórnmálanna, hvort sem um er að ræða greiðslur eða aðra fyrirgreiðslu til flokka eða manna eða til verkefna, sem tengjast þeim.

Ástandið hér á landi stafar ekki af, að íslenzkir stjórnmálamenn séu spilltari en starfsbræður þeirra beggja vegna Atlantshafsins. Þeir hafa bara ekki orðið fyrir nægum þrýstingi og eru að spara sér og flokkum sínum óþægindin af að þurfa að sýna, hvernig þeir eru fjármagnaðir.

Vestrænt lýðræði hvílir á trausti manna milli og traustið hvílir á gegnsæi, en ekki blindni. Þetta er munurinn á þjóðskipulagi okkar heimshluta og ýmsu öðru þjóðskipulagi á jörðinni. Ekki þarf að efast um, að traust mundi eflast hér á landi, ef fjárreiður stjórnmálanna yrðu gegnsæjar.

Svo geta kjósendur spurt sjálfa sig, hvers vegna ýmsar opinberar siðareglur, sem þykja sjálfsagðar í öllum nágrannalöndum okkar, hafa ekki enn komizt til framkvæmda hér á landi.

Jónas Kristjánsson

FB