Blix rænir ekki fólki

Punktar

Hans Blix, yfirmaður vopnaleitar Sameinuðu þjóðanna í Írak, neitar að verða við kröfum Bandaríkjastjórnar um mannrán og nýtur þar stuðnings annarra ríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur heimild til að bjóða vísindamönnum Íraks og fjölskyldum þeirra öryggi á Vesturlöndum fyrir reiði Saddam Hussein, ef þeir vilja segja frá leynilegum vopnum hans, en vill ekki flytja þá til útlanda beinlínis gegn vilja þeirra. Bandaríkjastjórn vill að vísindamönnum verði rænt og þeir fluttir til Bandaríkjanna, þar sem Bandaríkjamenn spyrji þá spjörunum úr. Blix sagðist í gær ekki vera í vinnu hjá Bandaríkjunum, heldur Sameinuðu þjóðunum og muni fara eftir forskriftum í starfi. Hann sakaði einnig Bandaríkjastjórn um að halda leyndum upplýsingum, sem geti flýtt fyrir störfum vopnaeftirlitsins, en fréttalekastjórar Hvíta hússins hafa undanfarið sakað hann um að fara sér hægt í starfi. Patrick E. Tyler og Julia Preston skrifa um þetta í New York Times í dag.