Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótel Loftleiða er kominn í röð þeirra veitingahúsa, sem taka verður alvarlega. Þar er kominn nýr matseðill með ýmsum óvæntum réttum. Hann er ánægjulegt skref á uppleið salarins á undanförnum misserum.

Nú er hægt að fá mjög góðan mat í Blómasalnum. En þar er líka hægt að fá afleitan mat. Það er eins og jafnvægið skorti í flugtakinu. Góðum vilja er ekki fylgt nógu vel eftir í sjálfsaga og úthaldi.

Blómasalinn skortir festu og áreiðanleika Stjörnusalar Hótel Sögu, bæði í þjónustu og mat. Einstaka réttir eru betri á Loftleiðum en Sögu. En í heild skortir framboðið hin tiltölulega jöfnu gæði á Sögu.

Sumpart á þetta sínar sögulegu skýringar. Blómasalurinn hefur of lengi verið færibandastöð erlendra ferðahópa, tafafarþega og “stopover”-manna. Slíkt hlutverk hlýtur að draga úr sjálfsaga.

Nú eru Flugleiðir komnar með beint flug yfir Atlantshafið. Það rýrir erlenda veltu í Blómasal og kallar á fjölgun innlendra viðskiptavina. Og framför salarins á undanförnum misserum skapar einmitt grundvöll þess.

Notalegur staður

Nýlega gerði ég úttekt á veitingum Blómasalarins og prófaði tólf rétti af fastamatseðlinum og matseðli dagsins. Sömuleiðis reyndi ég að meta þjónustu og andrúmsloft staðarins.

Blómasalurinn er notalegri en Stjörnusalurinn á Hótel Sögu. Flóruveggur, timburveggir og hin opna innrétting gefa salnum hlýlegan blæ, einkum á kvöldin. Mér líður þar eins og mér liggi ekkert á.

Þjónustan í Blómasal er einkar vingjarnleg og kunnáttusamleg. Hún er hins vegar ekki eins kunnáttusöm og í Grillinu, né er yfirstjórn hennar eins nákvæm. Þetta kemur fram í móttöku gesta og svörum við spurningum þeirra um nánari atriði að baki lýsinga á matseðli.

Í Blómasal Hótel Loftleiða fékk ég ekki sjálfkrafa ísvatn á borðið um leið og ég hafði komið mér fyrir. Og ég sá þar hvergi vatn á borðum. Slík ódýr og smá, en mikilvæg atriði segja oft margt um reisn veitingastofu.

Á einu sviði þjónustunnar skaraði Blómasalur fram úr öðrum vínveitingastöðum. Vínglös voru hellt hálf, en ekki fyllt að þremur fjórðu hlutum, svo að gestir höfðu meiri möguleika en ella að ná ilmi úr víni.

Glösin hindruðu hins vegar, að árangur næðist af þessari hugulsemi. Þau eru ekki vínglös, sem þrengjast að ofan og safna ilmi, heldur eins konar vatnsglös á fæti.

Sjónvarp, því miður

Hótelbarinn fyrir framan Blómasal er viðkunnanlega innréttaður. Eini gallinn er sjónvarpið, sem truflar töluvert, þótt það sé haft í tiltölulega afskekktu horni.

Þarna var meðferð hanastéla í góðu lagi. Og þurra sérríið var ekki orðið gamalt og fúlt, svo sem oft vill brenna við á íslenzkum börum. En því miður var það eins og annars staðar hér landi geymt uppi í hillu, en ekki í kæli.

Graflax
Graflaxinn í Blómasal var sæmilegur, en ekkert umfram það. Sinnepssósan með honum var sérstaklega vel heppnuð, mun mildari en gengur og gerist. Sósan má ekki yfirgnæfa milt bragðið af graflaxinum og hún gerði það ekki heldur. Þar á ofan var hún fremur létt í sér.
Graflaxinn var vafinn utan um spergil. út af fyrir sig er það hugmynd. En spergill úr dós eða krukku er bara enginn spergill, allra sízt í köldum rétti. Ég lagði hann til hliðar eftir fyrsta bitann.
Verðið er 4.450 krónur sem forréttur.

Humarhalar
Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni með rjómahvítvínssósu komu þægilega á óvart. Þeir voru í fyrsta lagi óvenju stórir, alveg eins og í gamla daga, fyrir öld rányrkju. Eldhúsið virðist hafa óvenju góð sambönd á þessu sviði.
Bragðið sveik heldur ekki. Humarinn var mjúkur og bragðgóður og ekki ofsteiktur. En hann hefði gjarna mátt vera borinn fram heitur, eins og yfirleitt er venja. Hér var hann varla volgur.
Þegar matseðill segir, að rjómahvítvínssósa sé með humarhölum, býst maður við slíkri sósu á borðið. Hún leit hins vegar ekki dagsins ljós og þjóninum var ekki kunnugt um tilvist hennar.
Verðið er 7.150 krónur sem forréttur og 14.300 krónur sem aðalréttur.

Soðin ýsa
Soðin ýsuflök upprúlluð með humarsósu voru á matseðli dagsins. Þau voru góð á bragðið, þótt köld væru, en engan veginn neitt sérstök. Ekki voru þau tiltakanlega ofsoðin. Ýsan hefði verið mjög frambærileg, ef hún hefði verið heit.
Það bezta við þennan rétt var humarsósan. Hún var þunn og létt, með mildu og réttu humarbragði og bjargaði alveg ýsuflökunum. Slík sósa á greinilega vel við soðinn fisk.
Verðið er 5.000 krónur og er þá innifalin súpa á undan og eftirréttur, það er að segja heil þrírétta máltíð.

Steikt heilagfiski.
Sniglar í hvítlaukssmjöri með Pernod-líkjör voru á matseðlinum, en fengust ekki. Þótti mér það skrítið, því að hér er um dósamat að ræða. Ekki fékkst heldur rauðvínið Chateauneuf-du-Pape, sem var þó á vínlistanum.
Hellusteikt heilagfiski með rækjum og kryddsmjöri var pantað í stað sniglanna. Sá réttur var algerlega misheppnaður. Fiskurinn hafði verið steiktur langt umfram eðlilegan tíma. Þessi indæli og eðlisgóði matur var orðinn skraufaþurr og ólystugur.
Verðið er 4.640 krónur sem aðalréttur.

Lambakótilettur
Lambakótilettur með fylltum tómötum voru á matseðli dagsins. Sem betur fer höfðu rifin verið fituskorin, en samt var óhóflega mikil fita enn eftir.
Kótiletturnar voru hæfilega steiktar og rauðar inn við beinið. Samt voru þær bragðdaufar og hversdagslegar. Sósan með þeim var hæfilega þunnt, brúnt soð, sem átti vel við og var létt í maga.
Ég er lítið hrifinn af dósagrænmetinu, sem tröllreið kótilettunum sem og öðrum kjötréttum Blómasalar. Mér finnst óþarfi að bjóða upp á bragðlaust rósakál úr dós eða glasi, þegar nýtt rósakál fæst í hverri matvöruverzlun.
Ennfremur voru dósasveppir ósköp ómerkilegur matur í samanburði við nýja, innlenda sveppi, sem fást flesta daga í sumum verzlunum. Og gulrætur úr dósum eru blátt áfram hræðilegar í samanburði við nýjar gulrætur, sem fást í öllum búðum.
Kjötréttir Blómasalar hefðu verið nokkru betri á bragðið, ef rósakál, sveppir og gulrætur hefðu ekki verið að flækjast fyrir á diskunum. Hér var um að ræða hreina misnotkun á dósaopnurum.
Aðra sögu er að segja af hrásalatinu, er fylgdi kótilettunum sem og öðrum kjötréttum. Það var ferskt og gott og með skemmtilega snarpri sósu af þeirri tegund, sem í Ameríku er kölluð frönsk dressing.
Verðið er 6.400 krónur og er þá innifalin súpa á undan og eftirréttur, það er að segja heil þrírétta máltíð.

Lambalundir
Svokölluð Bökuð lambabuffsteik í smjördeigi, fyllt með rjómasoðnum fjallagrösum og borin fram með rauðvínssósu var langtum betri réttur. Sú steik sýndi, að eldhús Blómasalar getur vel meðhöndlað lambakjöt.
Að vísu er ég ekki viss um, að hráefnið í réttinum sé alltaf lambalundir, eins og var, þegar ég prófaði réttinn. En þið getið alténd spurt, áður en þið pantið.
Lambalundirnar voru frábærar, mátulega steiktar, meyrar og bragðgóðar, svo og snarpheitar innan í smjörbakstrinum. Með þeim var þunn og góð rauðvínssósa. Þessi réttur kom okkur þægilegast á óvart, sannkallaður herramannsmatur.
Verðið er 7.580 krónur sem aðalréttur.

Kjúklingabringa
Djúpsteikt kjúklingabringa, fyllt með hrísgrjónum og borin fram með rjómasveppasósu var líka skemmtilegur réttur, sem kom á óvart. Kjúklingurinn var meyr og bragðmikill, hóflega kryddaður með karrí. En sósan var köld, þegar hún kom á borðið.
Verðið er 8.200 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Tournedos béarnaise reyndist hátindur prófunarinnar. Þessi turnbauti var einn hinn allra bezti, sem ég hef fengið hér á landi, alveg í frönskum og bandarískum klassa. Kjötið var snöggsteikt og undurmeyrt, eðlisgott og vel með farið.
Ég er orðinn nokkuð leiður á hinni eilífu béarnaise-sósu með turnbauta. Íslenzkum eldunarmeisturum hlýtur að geta dottið í hug fleiri útgáfur af turnbauta. en þessi sósa var með bezta móti, óvenju létt og fór vel við kjötið.
Verðið er 11.330 krónur sem aðalréttur.

Tvíeinn ís
Eftirréttaskrá matseðilsins var með fátæklegasta móti. Af fimm réttum voru tveir ísar, sem reyndust þó aðeins vera einn, þegar á hólminn var komið. Það var sósan, sem var mismunandi, og svo var annar ísinn á marensbotni.
Ísarnir hétu annars vegar Rjómaís á marensbotni með appelsínulíkjör og hins vegar Rjómaís Peter Heering. Báðir voru þeir mjög frambærilegir, einkum hinn síðarnefndi.
Verðið er 2.080 krónur á hinum fyrra og 1.870 krónur á hinum síðara.

Pönnukaka
Íslenzk pönnukaka með rjóma var á matseðli dagsins. Hún var nákvæmlega eins og ég átti von á, svona eins og pönnukaka er venjulega. Sem eftirréttur er hún vel viðeigandi.,
Verðið er ekki gefið upp sérstaklega, þar sem pönnukakan var hluti af þriggja rétta matseðli.

Ostur
Ostur og kex ollu mér vonbrigðum. Ostabakkinn var ekki vitund aðlaðandi, þótt þar væri boðið upp á margt, gráðost, mysuost, hnetuost, camembert og nokkrar tegundir af kexi.
Camembertinn var greinilega beint úr kæli, pinnstífur og ekkert byrjaður að þroskast. Mér finnst tilgangslaust að bera fram þennan ost í slíku ástandi.
Verðið er 2.360 krónur.

Hraunkaffi

Loks er að geta sérgreinar Blómasalar á ættmeiði Írska kaffisins. Það er Hraunkaffi eða Lavakaffi. Kaffi er hellt í leirkrús. Í það er síðan látinn Grand Marnier appelsínulíkjör og kveikt í honum. Síðan er flórsykur settur í og síðast þeyttur rjómi. Þetta er hressandi og skemmtileg tilbreyting frá öðru áfengiskaffi.

Vín

Vínlistinn í Blómasal er ekki nógu góður, einkum í rauðvínum. Þar vantar Chateau Talbot, Chateau Paveil de Luze og einkum þó hið ódýra Trakia, sem fæst þó í kaffiteríunni frammi. Merkinu í Blómasal halda uppi Geisweiler Grand Vin og Chianti Classico.

Í hvítvínum er ástandið betra, því að þar fást Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Gewürztraminer, Chablis og Edelfräulein.

Meðal annarra frambærilegra vína á lista Blómasalar eru Saint Emilion, Geisweiler Reserve, Mercurey og Chateau de Saint Laurent af rauðvínum og af hvítvínum Riesling og Auxerrois frá Luxemborg, Sauternes og Rüdesheimer Burgweg.

Með skeldýraréttum Blómasalar mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur og með kjötréttunum mæli ég með Geisweiler Grand vin á 4.675 krónur eða Chianti Classico á 3.340 krónur eða jafnvel Chateau de Saint Laurent á sama verði.

Fastaseðillinn er betri

Matseðill dagsins er einkar ódýr í Blómasal. Þar er unnt að velja milli þriggja þríréttaðra máltíða á 5.000 krónur, 6.400 krónur og 7.600 krónur. með kaffi og hálfri vínflösku (Chianti) á mann verða þetta 7.300 krónur, 8.700 krónur og 9.900 krónur.

Þó má ráða af matarlýsingunum hér að framan, að minna er vandað til þessa matseðils í eldhúsinu en til fastaseðilsins. Dagsseðillinn er fremur miðaður við hótelgesti, sem þurfa að borða til að lifa, en ekki við aðra gesti, sem eru beinlínis að fara út að borða.

Matseðill dagsins var semsagt ekki áhugaverður frá sjónarmiði matargerðarlistar.

Hinir betri réttir, sem eru á fastamatseðlinum, eru líka miklu dýrari, næstum því eins og í Stjörnusal Hótel Sögu. Meðalverð 14 forrétta, súpa og eggjarétta í Blómasal Hótel Loftleiða er 2.900 krónur, 11 aðalrétta úr fiski og kjöti 8.300 krónur og 5 eftirrétta 2.200 krónur.

Með kaffi á 600 krónur og hálfri vínflösku ætti meðalmáltíð af fastaseðli að kosta um 15.700 krónur í Blómasal á móti 16.300 krónum í Stjörnusal. Allar þessar tölur eru samkvæmt verðlagi um áramótin.

Hífopp

Matseðillinn í Blómasal er að því leyti skynsamlegur, að samtals eru aðeins á honum 30 réttir á móti 47 í Stjörnusal. Því færri sem réttirnir eru, þeim mun auðveldara er að afla ferskra hráefna og meðhöndla þau á réttan hátt.

Turnbautinn og lambalundirnar eru dæmi um, að matreiðsla Blómasalar getur verið mjög góð, jafnvel hin bezta á landinu. Ef allt væri í þeim stíl, mundi ég hiklaust gefa staðnum níu í einkunn.

Ráðamenn staðarins ættu nú að leggja áherzlu á jafnari gæði í matreiðslunni, einkum nákvæmari tímasetningar í matreiðslu fiskrétta og minni notkun dósagrænmetis.

Sömuleiðis þarf að tryggja, að heitur matur sé enn heitur, þegar hann kemur á borð gestanna. Og auðvitað þarf Blómasalur að geta boðið gestum vínglös að drekka úr.

En Blómasalur hefur farið batnandi að undanförnu og getur áreiðanlega batnað enn. Sem stendur fær matreiðslan þar sex í einkunn, sömuleiðis þjónustan og vínlistinn. Umhverfið á staðnum fær hins vegar átta. Meðaleinkunn Blómasalar Hótel Loftleiða er sex af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan