Blómasalur

Veitingar

Ég býð Blómasal Hótels Loftleiða velkominn í hóp landsins beztu veitingahúsa. Staðnum hefur farið svo fram á einu ári, að hann er kominn á bekk með Sögu og Holti, rétt á eftir hinu endurreista og ágæta Nausti.

Í síðustu prófun Vikunnar reyndist Blómasalurinn meira að segja ívið betri en Grillið og Holt, þótt munurinn sé raunar ekki marktækur. Þetta er vel af sér vikið af stað, sem sumpart er færibandastöð erlendra strandaglópa.

Landsins bezti vínlisti

Nærri öllu hefur farið fram í Blómasal. Mest átak hefur verið gert í vínlistanum, sem býður nú upp á allt hið bezta, er fæst í Ríkinu, og þar að auki öll þau vín, sem bezt hafa hlutfall verðs og gæða. Semsagt upp á tíu.

Hér má fá af rauðvínum Talbot, Chateauneuf-du-Pape, Chianti Antinori, Saint Laurent og Trakia. Og af hvítvínum Gewürztraminer, Bernkasteler Schlossberg, Wormser Liebfrauenstift Riesling og Edelfräulein, allt góð vín.

Þjónustan var komin í hinn áreynslulausa, skjótvirka og fagmannslega farveg, sem einkennir beztu veitingahús. Og það er ekki þjónunum að kenna, að Blómasalur notast enn við vatnsglös á fæti í stað réttra vínglasa.

Matreiðslan virðist hafa losnað við ójöfnur og er auk þess orðin hugmyndaríkari en áður. Alls kyns þjóðréttakvöld, sælkerakvöld, síldarkvöld og annars konar húllumhæ hefur haft jákvæð áhrif og komið fjöri í hlutina.

Seðill fjögurra sjávarrétta

Athyglisverðasta nýjungin er góður og tiltölulega ódýr sjávarréttaseðill með fjögurra rétta röð og vali milli smálúðu og skötusels. Það yljar óneitanlega um hjartarætur að sjá sífellt fleiri nota landsins beztu hráefni.

Forréttur þessa seðils var djúpsteiktur hörpuskelfiskur á makkarónum í bragðsterkri rjómasósu. Fiskurinn var sérstaklega meyr og góður, í hæfilega litlum steikarhjúp. Makkarónurnar voru hins vegar ekki mikils virði.

Belgíska fiskisúpan, sem fylgdi í kjölfarið, var raunar koníaksblandaða humarsúpan á fastaseðlinum, blönduð rækjum til viðbótar. Hún var vel rjómuð og góð á bragðið, en of mild. Eiginlegt fiskisúpubragð vantaði.

Smálúða og skötuselur

Eplabökuð smálúðuflök með sveppasósu voru annar aðalrétturinn á fiskiseðlinum. Þau voru góð, en borin fram undir óhóflega miklum osthjúp og með of mikilli kartöflustöppu. Soðna brokkálið hefði mátt missa sig, en sósan var góð.

Hinn aðalrétturinn, sem velja mátti um, var innbakaður skötuselur með karríhrísgrjónum. Hann var nokkru þurrari en þurft hefði að vera og hrísgrjónin voru í bragðsterkasta lagi. Eigi að síður var þetta hinn ágætasti matur.

Steiktur banani í kaffilíkjör, borinn fram með þeyttum rjóma, var fjórði og síðasti réttur þessa seðils. Þetta var skemmtilegur réttur. Bananinn var bakaður í hýðinu, ekki fallegur að sjá, en þeim mun betri á bragðið.

Fallega reykt smálúða

Enginn matseðill dagsins var að þessu sinni í Blómasal, enda var í fullum gangi sérstök síldarvika með fjölbreyttu hlaðborði. Af því var aðeins prófuð fallega reykt smálúða, ánægjuleg nýjung, sem reyndist sérlega vel.

Bakaðir sjávarréttir var nafn á forréttaskránni á rækjum, innbökuðum í deigi. Þetta var frambærilegur réttur, enda deigið í lagi, sem sést því miður of sjaldan hér á landi. En hvers vegna spilla góðum rækjum með deigi?

Fyllt smálúðuflök með humarsósu og sveppum voru á fastaseðlinum. Þau voru of þurr, en það hvarf í skugga hinnar frábæru sósu. Þess má líka geta, að hvítu kartöflurnar voru lítið soðnar og þess vegna hæfilega stinnar.

Hrásalatið, sem fylgdi aðalréttum Blómasalar var að þessu sinni einfalt og gott. Það var ekkert annað en ísberg og tvær tómatskífur með bandarískri “dressingu”. Hrásalöt hafa sem betur fer sigrað á íslenzkum veitingamarkaði.

Minnti á andakjöt

Bökuð lambabuffsteik í smjördeigi, fyllt rjómasoðnum fjallagrösum og borin fram með rauðvínssósu, olli vonbrigðum að þessu sinni, ekki sízt vegna þess að hún hafði verið svo frábær árið áður.

Réttir sem þessi eru ákaflega viðkvæmir í matreiðslu. Það kom líka í ljós, að lambakjötið var allt of steikt, bragðlaust og innan í allt of mikilli deighúð. Satt að segja minnti það á þurra önd, hvernig sem á því stendur.

Glóðarsteiktur turnbauti með béarnaise-sósu og rauðvínssósu var alveg ágætur, svona eins og maður á að geta búizt við, þegar svo dýr réttur er pantaður. Og rauðvínssósan var ágæt tilbreytni frá hinni hefðbundnu béarnaise-sósu.

Ísar eftirréttaseðilsins voru góðir eins og yfirleitt gerist hér á landi. Ostabakkinn var hins vegar ekki merkilegur, enda hráefnin ekki í lagi og þar að auki beint úr ísskáp. Kiwi og ferskur ananas á bakkanum björguðu málum.

Verðið hefur lækkað

Hinn fjögurra rétta sjávarseðill kostaði aðeins 105 krónur og eru það góð kaup. Miðjuverð forrétta á fastaseðli var 45 krónur, súpa 23 krónur, fiskrétta 69 krónur, kjötrétta 107 krónur, sæturétta 26 krónur og osts 41 króna.

Þriggja rétta máltíð af fastaseðli, með hálfri flösku af ódýru víni, kaffi og fatagjaldi, ætti að kosta að meðaltali 195 krónur í Blómasal. Það er svipað og á Hlíðarenda og orðið aðeins ódýrara en í Nausti, Grilli og Holti.

Matareinkunn Blómasalar Loftleiða var að þessu sinni átta, vínlistaeinkunn tíu, þjónustueinkunn níu og umhverfiseinkunn sjö. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 82 stig af 100 mögulegum.

Vegin heildareinkunn Blómasalar er því átta.

Jónas Kristjánsson

Vikan