Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótels Loftleiða hefur um nokkurt árabil verið að færa sig milli verðflokka. Fyrir nokkrum árum var hann einn af dýru stöðunum á borð við Grillið á Sögu og Holt. Nú er hann orðinn að miðjuverðstað á borð við Lækjarbrekku og Torfuna.

Minnkandi metnaður

Um leið hefur metnaður Blómasalar minnkað, en kannski ekki alveg eins mikið og verðlækkunin gæti gefið tilefni til. Þjónusta er nokkurn veginn eins góð og hún hefur bezt verið. Sérstakur móttökustjóri tekur á móti gestum við komuna og leiðir þá til sætis. Þjónustulið staðarins er skólagengið og kann sitt fag.

Matreiðslan er það, sem hefur látið á sjá. Hún gefur í skyn, að Hótel Loftleiðir hafi gefizt upp á að keppa við hótelin Sögu og Holt og aðra gæðastaði um viðskipti innlendra matgæðinga og einbeiti sér að hinum fjötraða hópi hótelgesta. Enda fara útlendingarnir á sumrin langt með að fylla staðinn dag eftir dag.

Blómasalurinn bætir sér að vetrarlagi upp hægari straum ferðamanna með ýmsum skemmtilegum og þörfum uppákomum. Þá eru haldin kynningarkvöld á einstökum löndum, sælkerakvöld og ýmsar árvissar hátíðir. Við slíkar aðstæður magnast í eldhúsinu metnaður umfram hverndaginn. En af almennum markaði matgæðinga virðist staðurinn vera að hverfa.

Einn bezti vínlistinn

Útlit og andrúmsloft Blómasalar er svipað og verið hefur, en þó vinalegra en áður. Rauði liturinn er notaður í allt. Munnþurrkurnar eru rauðar, dúkarnir eru rauðir, stólarnir eru rauðir, gluggatjöldin eru rauð og gólfið er rautt. Lýsingin hefur verið tempruð, svo að staðurinn virðist nánast dulmagnaður á kvöldin. Og honum fer alls ekki illa að vera víður og opinn.

Vínlisti Blómasalar er einn hinn bezti á landinu. Þar vantar nánast ekkert af þeim drykkjarhæfu vínum, sem á annað borð fást í Ríkinu. Meira að segja er hægt að fá Tio Pepe fyrir matinn og Quinta do Noval með kaffinu. Þessi ágæti vínlisti stingur mjög í stúf við hina mörgu lélegu vínlista í veitingahúsum landsins, augljóslega valinn af þekkingu og smekkvísi.

Af rauðvínum má benda á Chateauneuf-du-Pape, Chateau de Saint Laurent, Saint Emilion, Chianti Antinori og svo hið ódýra Trakia. Af hvítvínum má benda á Gewürztraminer og Chablis, hin ágætu matarvín, svo og hið ljúfara Wormser Liebfrauenstift Riesling.

Dósahnífur á lofti

Matargestir á kvöldin hafa frjálsan aðgang að salat- og brauðbar, sem ekki er sérlega umfangsmikill eða spennandi. Í prófuninni reyndist þó vera þar mikið af ljómandi fallegu ísbergssalati. Einnig blaðlaukur, olífur, tómatar, gúrka og tvenns konar paprika. Minna var spunnið í dósasveppina og maískornin. Þrenns konar sósur fylgdu borðinu, svo og þrjár tegundir brauðs.

Spergilsúpa reyndist þykk og mjög heit, með ágætis spergli.

Grafsilungur var ágætur, borinn fram með rjómasósu og dósaspergli. Einkennilegt var að sjá í uppsetningu matarins á disk trjóna efst smjörstykki í álpappír, svona eins og menn fá úr plastbökkum í flugvélum. Verður næst borinn fram ís í Mjólkursamsöludósum?

Eggjakaka hússins hafði að geyma dósasveppi og skinkubita, en sjálf eggjakakan var sómasamleg.

Kjúklingur kryddleginn með steiktum ananas var raunar ekki með ananas, heldur léttsoðnum dósagulrótum og brokkáli, svo og gúrku og tómati. Skorpan hafði sætan ávaxtakeim, sem minnti á appelsínusósuna, er fylgdi. Sjálfur kjúklingurinn var fremur þurr.

Glóðarsteiktur turnbauti var ekki hrásteiktur, eins og um hafði verið beðið, heldur miðlungi steiktur og í bragðdaufasta lagi. Með honum komu dósasveppir, dósaspergill og bökuð kartafla, svo og sæmileg béarnaise-sósa.

Lambageirinn var hringvafinn og fremur feitur og matarlítill, en ágætur á bragðið. Með honum var sama meðlætið og með turnbautanum.

Nýi, soðni laxinn með gúrkusalati, sem var trompið á seðli dagsins, reyndist óhæfilega mikið soðinn, þótt beðið væri um, að vægt yrði farið í sakirnar. Fyrir bragðið var hann þurr. Þar á ofan var hann ekki nógu heitur. Með honum fylgdu soðnar kartöflur, sýrðar gúrkur og dósagulrætur.

Heimalagaður rjómaís með súkkulaðisósu var góður á bragðið.

Íslenzkt hlaðborð

Í hádeginu er í Blómasalnum hlaðborð á 475 krónur, einkum sniðið fyrir útlendinga. Þar er fremst sýnishorn af gömlum, íslenzkum mat, svo sem hval, hákarli og hrútspungum. Síðan eru nokkrar tegundir síldar og drjúgt fiskrétta. Ennfremur lambakjöt og sitthvað fleira. Þetta freistaði mín ekki. Á laugardögum er 695 króna víkingaveizla fyrir útlendinga með tilheyrandi húllumhæi og útgáfu viðurkenningarskjala.

Miðjuverð á forréttum fastaseðilsins er 230 krónur, súpum 105 krónur, fiskréttum 295 krónur, kjötréttum 440 krónur og eftirréttum 135 krónur. Með kaffi á 40 krónur og hálfri vínflösku á 104 krónur ætti þriggja rétta máltíð að kosta að meðaltali 714 krónur, hvort sem pantað er af fastaseðli eða stuttum seðli dagsins, en örlitlu meira, ef valið er hlaðborðið í hádeginu.

Jónas Kristjánsson

DV