Blómasalur Hótels Loftleiða hefur batnað að útliti við að opnast út í anddyri hótelsins. Hann er bjartari en áður og gestum er síður hætt við innilokunarkennd, sem fylgdi staðnum áður fyrr. Salurinn er í eðlilegri og líflegri tengslum við hótelið, því að matargestir verða lítillega varir við þysinn frammi í móttöku.
Að öðru leyti er salurinn svipaður og fyrr, með Drápuhlíðargrjóti á veggjum og stórum glugga út að flugvellinum. Útsýnið er ekki eins kuldalegt og áður, síðan nokkur tré festu rætur utan gluggans. Gróðurinn innan stóra gluggans mætti hins vegar vera ræktarlegri. Kannski er vatnsskorti um að kenna. En það er þó kostur, að gróðurinn skuli ekki vera úr plasti, eins og nú tíðkast í veitingasölum.
Breytingin á svæðinu felst einkum í, að framan við Blómasal hefur verið komið fyrir öðrum veitingasal, Lóninu, í opnum hótelstíl, sem gæti verið í Skrúð á Hótel Sögu eða hvar sem er á Norðurlöndum. Þessi stíll er orðinn að klisju, sem hver étur upp eftir öðrum.
Sömu fiskréttir
á hverjum degi
Matreiðsla á alþjóðlegum hótelum er líka orðinn að klisju, sem veldur því, að menn vita varla, hvar í heiminum þeir eru að borða. Matreiðslan í Blómasal er undir þessu oki ferðamannaþjónustunnar. Sem dæmi um skort á tilfinningu fyrir matargerðarlist má nefna, að á fastaseðli hússins eru nokkrir fiskréttir, sem ekki er hægt að fá ferska á hverjum degi.
Blómasalur hefur dagsseðil, en hann er svo stuttur, að þar rúmast aðeins tveir fiskréttir og einn kjötréttur, ein súpa, einn forréttur og einn eftirréttur. Samt er meðalverð hans mjög hátt, 3.020 krónur, ef valin er þriggja rétta máltíð með kaffi á eftir. Verðið á fastaseðlinum er svo í himinhæðum, 3.780 krónur á þriggja rétta máltíð. Til samanburðar má nefna, að þetta er rosalega hátt yfir verðlagi Holts.
Á þessu verði borðar enginn Íslendingur, enda er þetta fyrir hótelgesti, sem treysta sér ekki úr húsi. Svo er um suma, sem eru á faraldsfæti milli landa, að þeir fara helzt ekki lengra en 100 metra frá næsta hótelbar. Fyrir þá eru settar upp matstofur af þessu tagi og heita viðskiptavinirnir þá “captive audience” á kaupsýslumáli. Þá viðskiptamenn mætti á íslenzku kalla viðskiptafanga.
Í hádeginu er þríréttað með kaffi á 1.930 krónur í Lóninu. Þá er líka boðið upp á fallegt hlaðborð fyrir 1.395 krónur og verður það vonandi prófað síðar.
Elskuleg
þjónusta
Fangar staðarins eru ekki sviknir af þjónustunni. Hún er fyrsta flokks, svo sem tíðkast á vönduðum hótelum og meira að segja elskuleg. Eina undantekningin var, að veitingastjórinn, karlmaðurinn í hópnum, stóð sjaldnast við púltið, svo að gestir urðu stundum að bíða, unz þeim yrði vísað til borðs. Ég var raunar ekki viss um, að reiknað væri með neinum gestum.
Ytri umbúnaður máltíðarinnar er nokkuð góður, þótt húsgögn séu snjáð. Stólar eru nokkuð góðir og þó enn betri frammi í Lóni. Þar er hægt að fá mat úr sama eldhúsi í hádeginu, þegar Blómasalur er lokaður.
Eins rúmt er um borð í Lóninu og þröngt er um þau í Blómasal. Þau eru með marmaraplötum eins í Skrúð. Þjónustan er afar góð á þeim stað líka. Þar voru líka einar þær beztu pappírsþurrkur, sem ég hef farið höndum um.
Athyglisvert er, að mitt í allri þessari stöðluðu alþjóðahyggju er fátæklegur vínlisti, sem minnir á gömlu tímana í Ríkinu, þegar enginn hafði þar minnstu hugmynd um eðli léttra vína og mismun þeirra. Vínseðillinn er nokkurn veginn eins og slíkir listar voru hér fyrir tíu árum og tekur lítið tillit til aukins úrvals.
Kofareykt
hreindýr
Máltíðum í Blómasal fylgir aðgangur að litlum og einföldum salatbar, sem var alveg laus við að vera þreytulegur og um leið alveg laus við að vera spennandi. Þar voru líka fjórar tegundir af grófu brauði.
Rauðvínsleginn hörpuskelfiskur var nokkuð meyr og góður, borinn fram með svo mildri sósu, að erfitt var að greina bragð, svo og ferskum grænmetisþráðum. Léttsteiktar gellur voru fallega uppsettar á skrautlega diska, með fersku tómatmauki, greinilega ekkert kryddlegnar.
Mun betri forréttur var kofareykt hreindýrakjöt, skemmtilega bragðsterkt og fagurlega fyrir komið eins og gellunum, borið fram með tærri kryddjurta-ediksósu.
Frammi í Lóni prófaði ég í forrétt salatrétt, sem var að mestu kínakál, skreytt ýmsu grænmeti og ávöxtum. Þar mátti einnig fá afar hversdagslega hveitisúpu, sem hét rjómalöguð sellerísúpa.
Einn aðalrétturinn, sem ég fékk, var gljáður skötuselur með bræddri dalayrju, sem yfirgnæfði fiskinn í bragði. Grænmetið var hæfilega lítið soðið. Tómatsósan, sem fylgdi, svo að rétturinn mætti heita Provencale, kom eins og út úr kú.
Gufusoðnar smálúðurúllur voru sæmilegar, eins og slíkar rúllur hafa verið í meðalgóðum veitingahúsum hér á landi um margra ára skeið. Þær voru hvorki tiltakanlega meyrar, né tiltakanlega þurrar, bornar fram með pínulitlu af fennikelsósu. Þeim fylgdu kartöflur, sem voru fyrst afhýddar og síðan soðnar, svo að þær verða frekar leiðinlegur matur.
Lambalundir voru hæfilega lítið steiktar, sagðar bornar fram með möndluflögum, sem ég fann ekki og saknaði raunar ekki, þótt ég leitaði þeirra formsins vegna. Í staðinn var dálítið af lauk, sem ég held að hafi hæft betur.
Skrúfupasta
Lóns var bezt
Frammi í Lóni prófaði ég mjög góðan pastarétt, sem vakti mig til meðvitundar um, að hæfileikar leyndu á sér í eldhúsinu. Þetta var hæfilega skammt soðið skrúfupasta með parmiggiano-osti, rækjum og grænmetisþráðum, afar hressandi hádegisréttur.
Á sama tíma var í Lóninu mjög góður skötuselur, smjörsteiktur, með dillsósu og mjögsoðnum kartöflum.
Einn eftirrétta Blómasalar var steiktur og líkjörsvættur ananas með ís, sósu og skrautlegum ávöxtum, fagmannslega bálaður við borð gesta. Annar var nokkuð gott ananas og bláberjakrap. Þriðji eftirrétturinn var ágæt súkkulaði- og kaffiterta, sem var kölluð ostaterta, þótt osthlutinn væri lítill sem enginn.
Ljúfur og menningarlegur píanóleikari hafði vit á að leika hæfilega lágt.
Jónas Kristjánsson
DV