Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótels Loftleiða hefur snögglega batnað eftir langa eyðimerkurgöngu. Hann er orðinn frambærilegur gluggi íslenzkrar matreiðslu gagnvart erlendum ferðamönnum, er sumir hverjir kynnast fáu öðru en hótelinu.

Verðlagið er svipað og í Holti, 3240 krónur fyrir þrjá rétti á mann, en gæðin mun minni. Þau eru hins vegar í góðu lagi, ef borið er saman við aðra staði hliðstæða í bænum. Salurinn er bara opinn á kvöldin, en fyrir framan hann er Lónið, sem alltaf er opið á matmálstímum.

Salurinn hefur lítið breytzt. Speglar á miðsúlu létta hann, svo og hvítur skenkur við eldhúsdyr. Drápuhlíðargrjót er enn á veggjum, lágt viðarloft, pottaplöntur við útsýnisglugga og fínir borðstofustólar. Litlu flugvélarnar fyrir utan gluggana gefa staðnum heimsmennskusvip.

Þjónusta er afar góð í Blómasal, einhver hins bezta á landinu, tæknilega örugg og streitulaus, hvorki yfirlætisleg né undirgefin. Það er sú breyting, sem mest sker í augum. Þessi góða þjónusta hlýtur að gefa ferðamönnum ánægjulega og traustvekjandi mynd af þjóðfélaginu.

Matseðillinn er eins og við er að búast í hótelsal og gæti raunar verið á alþjóðlegu keðjuhóteli, ef ekki væru á honum meira af fiski en kjöti. Fiskréttirnir eru að mestu leyti fastir, en ekki breytilegir eftir aðstæðum dagsins og þrengir það möguleika á tilþrifum í eldhúsi.

Vínlistinn er til fyrirmyndar, forðast dýr merki og heldur sér við einföld gæði. Þar eru sérríin Tio Pepe og La Ina; púrtarinn Noval; hvítvínin Hugel, Gewurztraminer og Cléray; og rauðvínin Chateau Barthez, Chateau Batailley, Mouton Cadet, Santa Cristina og Riserva Ducale.

Ferskur Hvalfjarðarkræklingur, hvítvínsgufusoðinn í skelinni, borinn fram með grönnum jöklasalatsþráðum, var fínasti forréttur. Ristaðir humarhalar í svokölluðu eikarlaufssalati voru eins konar humar- og paprikusalat með mosagrænu pasta, nokkuð góður réttur. Rjómalöguð sjávarréttasúpa með rækjum, hörpu og humri, var mild og volg, úr humarsoði, ekki merkileg. Laxarós úr reyktum laxi var fagurlega sett á disk og bragðgóð, borin fram með örsmáum kartöfluteningum og mintusósu, sem kölluð var graslaukssósa á matseðli.

Reyksoðið laxafiðrildi var í rauninni sæmilega þykk steik, sem minnti í bragði á reyktan fisk og hæfði því aðeins sérhæfðum smekk, borin fram með sítrónusmjörsósu og smásöxuðu grænmeti. Smjörsteiktur silungur var í lagi, fremur bragðdaufur, borinn fram með zucchini, góðri grænmetissátu og hvítvínsmöndlusósu. Grillaðir humarhalar með eigin soði og léttu salati voru til fyrirmyndar, bornir fram með ristuðu heilhveitibrauði og smjöri. Smálúða dagsins var fremur góð, en of mikið soðin, í eggjasósu með afar daufu saffranbragði. Rósapipraðar nautalundir með koníakssinnepssósu voru fagmannlega eldsteiktar við borðið, afar góðar.

Súkkulaðislaufa utan um frauð úr hvítu og dökku súkkulaði með kaffisósu var sæmileg. Fersk jarðarber með karamellusósu voru í rauninni óvenjulega fersk og falleg. Bláberjafrauð var úr íslenzkum bláberjum, afar góð ur eftirréttur. Heitur eplapíramídi með marsipani og vanilluís var hins vegar stór og leiðinlegur kökupíramídi yfir örlitlu magni af soðnum eplum og marsipani.

Jónas Kristjánsson

DV