Bölvuðufjöll

Greinar

Blaðamaðurinn Rorbert Carver hefur skrifað átakanlega bók, Bölvuðufjöll, um Albaníuferð árið 1996 þegar alræðisflokkur kommúnista hafði verið hrakinn frá völdum, frjálsar kosningar voru komnar í móð og trúarbragðastríð á Balkanskaga voru rétt að byrja.

Albanía hafði ekki flutzt til vestræns nútíma með nýjum stjórnarháttum, heldur horfið inn í balkanskt myrkur ættbálkarígs og blóðhefnda. Nærri allt atvinnulíf hafði verið rústað, hvergi fannst heil rúða í verksmiðjum og enga heiðarlega vinnu var að hafa.

Fólk lifði á molum af borði spillingar valdhafa, á ránum og efnahagsaðstoð, á smygli og vændi. Til fjalla stunduðu menn kvikfjárrækt og gengu vopnaðir með kindum sínum. Annars staðar töldu menn það fyrir neðan virðingu sína að leggja hönd að verki.

Þetta var þá land ýmissa trúarbragða. Flestir voru íslamskir, en margir kaþólskir. Hvergi verður þess vart í allri vargöldinni, sem bókin lýsir, að neinn hafi haft minnsta áhuga á trúarbrögðum, hvað þá að þeir hafi valið sér andstæðinga með tilliti til trúarbragða.

Trúarstríðin, sem síðan einkenndu Balkanskaga, voru því ekki náttúruleg, heldur tilbúin af mannavöldum. Glæpamenn í röðum stjórnmálamanna mögnuðu upp trúardeilur og breyttu þeim í stríð til að efla valdastöðu sína og græða fé á misnotkun hennar.

Á þessum slóðum felst framtak í að verða sér úti um vestræna efnahagsaðstoð. Albanía, Bosnía og Kosovo lifa á henni og Makedónía og Svartfjallaland vonast til að geta lifað á henni. Það á ekki að koma neinum á óvart, þótt endurreisn svæðisins gangi ekki neitt.

Verra er, að skipulagðir og óvenjulega harðsvíraðir glæpaflokkar af þessum svæðum eru farnir að ryðja sér til rúms í Vestur-Evrópu og jafnvel í Norður-Ameríku. Þeir leggja stund á fíkniefnasölu og vændi, gripdeildir og smygl, svo og fjárkúgun kaupsýslumanna.

Hernámsliði Vesturlanda hefur gersamlega mistekizt að koma á lögum og rétti í Bosníu og Kosovo. Það er eins og vestrænt fólk eigi erfitt með að skilja, að bak við hvítar skyrtur og snyrtilegt hálstau leynist frumstæð ofbeldishugsun ættbálkarígs og blóðhefnda.

Fráleitt er, að nauðsynlegt andóf vestrænna ríkja gegn ofbeldi og útþenslu Serbíu þurfi að leiða til öfga á hinn veginn, að Vesturlönd verði að fjárhagslegum bakhjarli glæpalýðs í nágrannalöndum Serbíu, sem grefur beinlínis undan lögum og rétti á Vesturlöndum.

Mikilvægast er að hætta draumórum um friðsamlega sambúð fólks í fjölþjóðaríkjum. Einfaldast er að lýsa yfir landamærum og hjálpa mönnum til að forða sér yfir þau, ef þeir búa vitlausu megin þeirra. Síðan geta Vesturlönd takmarkað sig við að gæta landamæra.

Rómverjar reyndu fyrir rúmum tveimur árþúsundum að koma upp rómverskum friði á Balkanskaga. Kommúnistar reyndu eftir síðari heimsstyrjöldina að koma upp júgóslavneskum friði á Balkanskaga. Hvorugt tókst, af því að móttökuskilyrði skorti hjá fólki.

Efnahagsaðstoð kemur ekki að neinu gagni, ef fólk kærir sig ekki um að vinna, af því að það sé fyrir neðan virðingu þess. Miklu nær er að nota aðstöðu Vesturlanda til að grafa kringum rætur glæpahringa, sem eiga upptök sín í forneskju Balkanskagans.

Ófært er, að alls konar ólöglegt athæfi skuli blómstra í skjóli vestræns hervalds og vera þar á ofan eina útflutningsafurð svæðisins til Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV