Asískir matstaðir eru sjaldan merkir, flestir á hádegismarkaði fyrir vinnandi fólk. Ég undanskil sérstaka matreiðslu Japans. Að öðru leyti er krydd aðalmálið í Asíu, ekki fiskur eða kjöt eða grænmeti. í Kína er það til dæmis soya, satay eða hoisin, í Indlandi masala, korma, karrí og tandoori og vindalou. Indverskar sósur eru oftast sterkari og villtari en kínverskar. Austur-Indíafélagið, fínn og dýr staður, er aðeins opinn á kvöldin. Af indverskum stöðum á frekar lágu verði er beztur Bombay Bazaar í Ármúla, áður í Kópavogi. Feitt íslenzkt lambakjöt í Bombay lamb, hrásalat, raita jógúrt eru meðal hins góða í þessum notalegu innréttingum.