Til skamms tíma töldu Íslendingar almennt, að framtíðin mundi verða sér og þjóðinni hagstæð, að möguleikarnir væru miklir fyrir alla, sem vildu taka til hendi. Fólk var bjartsýnt og taldi sér flesta vegi vera færa. Jákvæður andi sveif yfir vötnum þjóðfélagsins.
Bjartsýnin gekk stundum út í öfgar. Menn réðust í verkefni af vanefnum og reistu sér hurðarás um öxl. Sum dæmin gátu alls ekki gengið upp, hvernig sem á hefði verið haldið. Miklir fjármunir og mikil fyrirhöfn og mikið hugvit fór forgörðum í þessum sviptingum.
Oftar var þó bjartsýnin og sjálfstraustið nægilega temprað til að ná árangri um skamman eða langan tíma. Þannig hafa síðustu áratugir einkennzt af mikilli fjárfestingu, miklum framförum og ört vaxandi þjóðartekjum. Íslendingar rifu sig upp úr kreppu og fátækt.
Nú virðist nokkurra áratuga tímabili bjartsýni, áræðis og framfara vera lokið. Atvinnurekendur verða gjaldþrota hrönnum saman. Hinir, sem eftir standa, eru svo hræddir um hag fyrirtækja sinna, að þeir ráðgera að draga saman seglin á næstu mánuðum og misserum.
Þetta kemur fram í könnunum, sem samtök þeirra hafa verið að láta gera. Í þeim kemur fram, að menn gera ráð fyrir litlum fjárfestingum og auknum uppsögnum starfsfólks. Niðurstaðan er sú, að spáð er þrengri kreppu og vaxandi atvinnuleysi á komandi ári.
Sama svartsýni og kjarkleysi kemur fram í væntingum unga fólksins. Ekki er lengur talið öruggt, að langskólanám leiði til öruggrar atvinnu á góðum lífskjörum. Verkfræðingar og hagfræðingar ganga atvinnulausir eins og aðrir, svo og læknar og lögfræðingar.
Stöðnun undanfarinna ára hefur stuðlað að hugarfarsbreytingunni. Fólk hefur séð lífskjör sín rýrna árlega og býst ekki við neinum bata á næstu árum, enda er um þessar mundir fylgt hagstefnu fastgengis, verðhjöðnunar og samdráttar í opinberum framkvæmdum.
Ekki bætir úr skák, að fólk sér, að yfirstéttin hefur vikið sér undan að taka með öðrum þátt í þessum erfiðleikum. Þetta hefur þau óbeinu og mjög skaðlegu áhrif, að tilfinning fólks rýrnar fyrir því, að það eigi hluta í þjóðfélaginu og sameiginlega hagsmuni með því.
Ekki dugar að kenna sögumanni um ótíðindin. Gjaldþrotin héldu áfram að hrannast upp, þótt ekki væri sagt frá þeim. Atvinnurekendur héldu áfram að draga saman seglin, þótt ekki væri sagt frá uppsögnum starfsfólks. Ríkisstjórnin héldi áfram samdráttarstefnunni.
Ísland er lítið þjóðfélag, sem má ekki við miklum hremmingum af þessu tagi. Samdráttur getur hreinsað kalvið úr þjóðlífsskóginum, til dæmis í atvinnulífinu, og þannig orðið til nokkurs gagns, ef hann verður ekki svo langvinnur, að burðarásarnir falli líka.
Langvinn kreppa drepur kostina, sem einkenndu framfaratímabil liðinna áratuga. Bjartsýni hverfur og áræði með. Væntingar rýrna og þar með tilfinning fyrir eigin þátttöku og hlutdeild í þjóðfélaginu. Þunglyndi og tilfinningar tilgangsleysis leggjast á unga fólkið.
Þótt grisja megi kalviði og rifja upp gamlar kennisetningar um nauðsyn á stöðugu gengi og verðlagi, um leið og ríkisstjórn vill þrengja að skólagöngu fólks og að öllum þeim, sem miður mega sín í þjóðfélaginu, getur þessi grisjun fljótlega orðið afar skaðleg.
Við erum að komast í svo mikla andlega bóndabeygju, að betra er að magna bjartsýni og áræði en halda fast í kennisetningar ríkisstjórnarráðgjafa.
Jónas Kristjánsson
DV