Borðalagðar pappalöggur

Greinar

Fyrir tæpu ári var löggæzla skorin niður með breytingum á fjárlögum. Þar að auki leiddu sérstakar takmarkanir á notkun lögreglubíla til þess, að löggæzla minnkaði á þjóðvegum landsins. Ennfremur var sett sérstakt eftirvinnubann á baráttu lögreglunnar gegn fíkniefnum.

Samhliða þessu hefur verið reist nýtt bákn við Skúlagötu 21, glæsilega merkt Ríkislögreglustjóranum með ákveðnum greini. Þar sitja menn og hanna skrautlega búninga af tuttugu gráðum handa sérstakri sveit dáta, sem fylgir dómsmálaráðherra á fundaferðum hennar.

Hámarki náðu skrautsýningar ráðherrans á blaðamannafundi í júlí, milli niðurskurðar fjárlaga og áminningarbréfs ráðuneytisins til sýslumanna. Ekki dugði ráðherranum minni fundarumgerð en flugskýli Landhelgisgæzlunnar og fjölmenn sveit borðalagðra dáta.

Á fundinum kom fram, að ráðherrann lifir í sérstökum einkaheimi, þar sem hún getur boðað stórkostlegt átak í umferðareftirliti, án nokkurs tillits til þeirra fjármuna, sem hún og félagar hennar í ríkisstjórninni verja til málaflokksins samkvæmt ákvörðunum í fjárlögum.

Enn var ráðherrann í fyrradag á kjósendafundi með borðalögðum dátum Ríkislögreglustjórans með ákveðnum greini. Þar skýrði hún nýja aðferð í baráttunni gegn fíkniefnasölum, sem bætir fyrir, að fíkniefnalögreglan hefur mánuðum saman aðeins mátt vinna dagvinnu.

Aðferð ráðherrans felst í, að hún “mun fylgjast grannt með fíkniefnadeildinni” að eigin sögn. Í samræmi við annars heims andrúmsloftið á fundi ráðherrans lagði einn fundarmanna til, að pappalöggur yrðu settar upp á svæðinu til að minna fólk á tilvist lögreglunnar.

Einn sýslumanna landsins tók í sama streng í blaðaviðtali í gær, þegar hann hafði rakið peningaleysi löggæzlunnar. “Ætli við verðum bara ekki að hafa pappalöggur. Það er í tízku í dag.” Þannig verður einkaheims dómsmálaráðherrans væntanlega minnzt í framtíðinni.

Pappalöggurnar á Reykjanesbraut hafa óviljandi orðið að einkennistákni embættisfærslu dómsmálaráðherrans. Þær eru raunar áþreifanlegasta dæmi sýndarveruleikans, þar sem ekkert samhengi er á milli yfirlýsinga á skrautsýningum og raunveruleika vaxandi peningaleysis.

Það er nefnilega hægt að þreifa á pappalöggunum og jafnvel setja þær í skottið á bílnum. Hið sama verður varla sagt um tuttugu mismunandi gráður borðalagðra dáta Ríkislögreglustjórans með ákveðnum greini. Þær sveitir eru fyrir framan speglana í Skúlagötu 21.

Við þurfum lítið á þessum borðalögðu sveitum að halda, ekki einu sinni við móttöku erlendra gesta ríkisvaldsins. Einfalt er að hætta að bjóða hingað fúlmennum, sem æsa fólk til mótmæla, en snúa sér bara að vammlausum fyrirmennum, sem nóg er til af.

Í stað sveitar borðalagðra dáta af tuttugu mismunandi gráðum er hægt að mæta erlendu stórmenni með því að framkvæma ríkisstjórnarsamþykkt, sem runnin er frá landbúnaðarráðherra, það er að segja með sveit fallegra, vel hærðra og hlýlegra hesta af íslenzku kyni.

Kjósendur virðast telja eðlilegt, að landsfeður lofi öllu fögru og jafnvel heilum milljarði, þegar mikið liggur við í kosningabaráttu, en gleymi því jafnóðum eftir kosningar. Hitt hefur komið mörgum á óvart, að ráðherra lifi áfram í skrautsýningum eftir kosningar.

Kannski er þarna komið fordæmi fyrir pappamönnum á Alþingi og að enda svo skopleik íslenzkra stjórnmála með því að koma okkur upp kjósendum úr pappa.

Jónas Kristjánsson

DV