Borg

Veitingar

Matsalur Hótels Borgar endurspeglar menningarsögulegt afrek, sem unnið hefur verið við endurreisn hins gamla virðingarhótels í miðborginni. Salurinn er aftur kominn nálægt upprunalegu millistríðshorfi. Afturhaldssamar ljósakrónur eru þó komnar í stað fúnkisljósanna gömlu og hæfa staðnum raunar betur.

Stjórnstöð í miðjunni dregur úr kuldanum, sem fylgir víðum og háum sölum. Hún skiptir salnum í kaffistofu og borðstofu. Í aðra átt er bar og hina skenkur. Þessi timburhlunkur yrði léttari og viðfelldnari, ef málmfótstig leysti af hólmi útskot í tréverkinu neðanverðu.

Nostalgían hæfir. Unga fólkið styður ömmur og afa til sætis, svo að rifja megi upp sokkabandsárin. Aðsókn er orðin góð, einkum í hádeginu, þegar staðurinn nýtur tilfallandi umferðar fólks á ferðinni í miðbænum. Að því leyti keppir Borgin við kaffihús á borð við París og Sólon.

Matreiðslan fylgir í humátt á eftir endurreisn Hótels Borgar. Hún er betri en hún hefur verið nokkru sinni á þriggja áratuga veitingahúsarölti mínu. Hún er meira að segja orðin frambærileg, aldrei þessu vant.

Sem betur fer nær nostalgían ekki til matreiðslunnar. Freistandi hefði verið að taka upp hina hræðilegu, dönsku matreiðslu, sem tíðkaðist á millistríðsárunum, og hæfir óneitanlega litlu miðbæjarhóteli í millistríðsárastíl. Fríkadellur úr kjöti og fiski eru raunar einu fortíðardraugarnir á matseðlinum. Ég prófa þær, þegar ég verð þungt haldinn af angurværð hins liðna.

Tveir stuttir seðlar eru á Borginni, annar notaður í hádeginu og hinn að kvöldi. Þetta eru fastir seðlar, sem aðeins bjóða einn fiskrétt dagsins. Ekki er hægt að segja, að matseðlarnir séu forvitnilegir aflestrar, en búa þó yfir óvæntum tilþrifum. Hæst bar þar hálfsæta lauksúpu dagsins, matarmikla, en ekki þykka.

Í eitt skiptið var fiskur dagsins skötuselur, hæfilega vel eldaður, borinn fram með spínati og eggaldini, svo og basil-kryddaðri tómatsósu, sem yfirgnæfði í bragði. Í annað skipti var fiskur dagsins steinbítur, mjög góður, borinn fram með möndlum við hæfi og hrásalati.

Ristaður hörpufiskur kom á óvart, óvenjulega stórir og meyrir vöðvar, bornir fram með sterkkrydduðum linsubaunum. Mildur skelfiskur og sterkar baunir mynduðu sterka andstæðu. Þetta var hættuspil, sem lánaðist.

Lambahryggur var vel rauður og vel meyr, borinn fram með bökuðum kartöfluþráðum og tómötum, svo og belgbaunum, sem á matseðli voru kallaðar snjóbaunir.

Gott var krem með þunnri og stökkri karamelluskorpu, svokallað Crème Brulée. Einnig sykraðar eplaskífur með vanilluís og karamellusósu.

Verðlag á Borg er svipað og á Holti, þótt fjölbreytni og matreiðsla standist ekki þann samanburð. Súpa og réttur dagsins kostuðu 920 krónur og þriggja rétta kvöldverður 2.900 krónur án drykkjarfanga.

l hvítvína er fremur slæmt, en gott í rauðvínum. Cahte au Fontareche kostar 2.290, Santa Christina 2.350, Marqués de Riscal á 2.750 og Mouton Cadet 2.150 krónur.

Tómas veitingamaður gerði góða hluti í Hard Rock Café. En fyrir endurreisn Borgar á hann skilið fálkaorðu.

Jónas Kristjánsson

DV