Borgarloftið

Greinar

Íslendingar eru lánsamir að hafa eignazt borg á skömmum tíma. Í Reykjavík hefur þjóðin fengið öfluga þungamiðju með flestu því, sem heimsborg getur prýtt og fæstu því, sem skaðlegt má telja við slíkar borgir. Reykjavík er borg, sem getur borið og ber höfuðið hátt.

Reykjavík er helzta vígi íslenzkrar byggðastefnu. Meðan borgin blómstrar er landið byggilegt. Víðs vegar um land kunna byggðir að fara í eyði, án þess að þjóðfélagið bíði hnekki. En Reykjavík má ekki bila, því að þá væri sjálfur hryggur þjóðfélagsins brostinn.

Þótt Reykjavík sé talin eiga sér Ingólf Arnarson og Skúla Magnússon að feðrum og haldi í dag hátíðlegt 200 ára kaupstaðarafmæli, er borgarsagan mun styttri, frá æviskeiði Tómasar Guðmundssonar. Um aldamótin var Reykjavík meðal jafningja í hópi þorpa landsins.

Sjálf borgarsagan hefur öll gerzt á þessari öld og það með undraverðum hraða. Meira en hálf þjóðin hefur flutt í borgina og nágrenni hennar. Reykjavík hefur megnað að breiða faðminn á móti öllu þessu fólki. Á afmælisdaginn er eins og borgin hafi ætíð verið til.

Stundum hefur þetta hlutverk verið erfitt, einkum á tíma braggahverfa eftirstríðsáranna, þegar borgarinnar virtust ætla að bíða þau örlög flestra stórborga þriðja heimsins að verða vonleysisstaður flóttamanna úr sveitum. En borgin megnaði að skipuleggja sig og hreinsa sig.

Reykjavík er gróin borg, bókstaflega, félagslega og menningarlega. Engum, sem um borgina fer, dylst, að borgin er ekkert stundarfyrirbæri. Hún er komin til að vera. Og það sem meira er: Hún hefur meira eða minna tekið við hlutverki landsins og gert það að borgríki.

Íslendingar eru meira eða minna orðnir Reykvíkingar, hvort sem þeir búa í Kvosinni, Breiðholti, Mosfellssveit, Flóanum eða austur á Héraði. Menn sækja til Reykjavíkur sem miðstöðvar sinnar. Meira að segja Byggðastofnun er í Reykjavík og ætlar sér að vera þar.

Þegar rætt er um að flytja flugvöllinn úr miðbænum, rís landsbyggðarfólk til andmæla. Úti á landi vita menn bezt, hversu þægilegt er að geta skotizt um Vatnsmýrina beint í Kvosina og brekkurnar í kring, þar sem öll ráð landsins eru hugsuð og þar sem peningarnir velta.

Nú orðið tengir fólk oft Reykjavíkurerindi sín við helgarfrí til að geta notið þess, sem staðurinn hefur upp á að bjóða sem borg, hvort sem það eru skröllin eða sinfónían, bíóin eða óperan ­ eða allt þetta í senn. Reykjavík hefur raunar flest það, sem útlönd prýðir.

Á nokkrum áratugum hefur Reykjavík orðið fullvaxta borg. Landið og þjóðin eru lánsöm að hafa eignazt slíka borg, sem er lykill að göngu okkar inn í nútíma og framtíð. En um leið hefur segull borgarinnar orðið slíkur, að ekki mun reynast rúm fyrir aðra slíka.

Á einni eða tveimur kynslóðum hafa Íslendingar lært að búa í tiltölulega ópersónulegu fjölmenni, þar sem menn þekkjast ekki á götum úti, þar sem nágrennið hirðir ekki um að veita félagslegt eða annað taumhald. Sveitamaðurinn hefur í vetfangi breytzt í borgarbúa.

Merkilegast er, hversu vandalítið þetta er. Stórborgarvandamál eru ekki umtalsverð í Reykjavík, en stórborgarhagurinn þeim mun auðsénni. Þegar hverfur áráttan að byggja ný hús í gömlum hverfum, má telja, að Reykvíkingar séu endanlega orðnir borgarbúar.

Á 200 ára afmæli Reykjavíkur hafa Íslendingar þegar fyrir löngu kynnzt réttmæti hins gamla spakmælis, sem segir, að borgarloftið muni gera yður frjálsa.

Jónas Kristjánsson

DV