Borgarsómi?

Greinar

Almennt hefur verið talið til skamms tíma, að friðsamlegt samkomulag hafi verið undirritað um, að heimsmeistarakeppni í handbolta yrði haldin í Laugardalshöll á næsta ári, búið væri að draga lið saman og allt væri komið í tiltölulega farsælan og einkum ódýran farveg.

Ágætir menn höfðu tekið ósleitilega til höndum við að bjarga í höfn þessu vandræðamáli, sem aðrir höfðu stofnað til af ofsafengnu kappi og lítilli fyrirhyggju fyrir fjölmörgum árum. Flestir önduðu léttar, þegar lausir endar höfðu verið hnýttir og lið dregin saman.

Þá kemur allt í einu upp úr dúrnum, að Reykjavíkurborg er komin á fulla ferð við að reyna að bjarga því, sem nýir valdhafar á þeim bæ kalla þjóðarsóma, rétt eins og borgarsómi dugi þeim ekki. Allt í einu er verið að velta upp 500 milljón króna handboltahöll að nýju.

Nokkuð ýkjukennt er að tala um þjóðarsóma, þegar málsaðilar voru áður búnir að sættast á þau málalok, að heimsmeistarakeppnin yrði í Laugardalshöll, jafnvel þótt hún sé miklu minni en sem nemur kröfunum, er settar voru fram, þegar mótið féll Íslandi í skaut.

Nú er talað um, að höllin taki í rauninni ekki þann fjölda, sem lofað var, þegar sætzt var á hana. Erfitt er að sætta sig við þá tilhugsun, að jafneinfalt atriði og hámarksfjöldi áhorfenda í gamalgrónu húsi þurfi að vera uppgötvunaratriði löngu eftir að endar voru hnýttir.

Svo virðist þó sem höllin rúmi þá áhorfendur, sem þar þurfi brýnt að vera, en stærri höll mundi geta rúmað fleiri íslenzka áhorfendur, sem ella yrðu að horfa á leikina í sjónvarpi. Varla getur þetta innanlandsvandamál flokkast undir borgarsóma og hvað þá þjóðarsóma.

Hins vegar má taka inn í dæmið auknar tekjur af aðgangseyri í stærri höll og ýmsar tekjur ríkisins og fyrirtækja í samgöngum og ferðaþjónustu af straumi útlendinga til landsins vegna heimsmeistarakeppninnar. Það er mál slíkra aðila að meta gagnið af stærri höll.

Ósvarað er þá nokkrum spurningum. Vilja mótshaldarar leggja fram auknu aðgangstekjurnar sem hlutafé í nýrri höll? Vill ríkið leggja fram tekjuauka sinn í sama skyni? Vilja fyrirtæki í samgöngum og ferðaþjónustu gera það líka? Hvað kemur samanlagt út úr slíku?

Ekki er víst, að alls staðar sé feitan gölt að flá. Hótelrými í Reykjavík mun minnka fram að heimsmeistarakeppni. Íslandsbanki hyggst breyta stóru nágrannahóteli Laugardalshallar í bankaskrifstofur í haust. Ekki verða erlendir gjaldeyristúrhestar hýstir þar á biðstofunum .

Laugardalshöll nýtist illa til vörusýninga og annarrar tekjuöflunar utan handboltatímans. Erfitt er að ímynda sér, að enn stærri höll mundi standa undir sér af stóraukinni starfsemi af slíku tagi. Þess vegna er ekki raunsætt að búast við bitastæðu hlutafé úr ráðstefnugeiranum.

Ef til vill er hægt að reisa fjölnota skemmu fyrir tiltölulega lítið fé og hafa af henni talsverðar tekjur umfram þær, sem nú fást af Laugardalshöll. Hætt er þó við, að tekjuáætlanir málsaðila verði í rósrauðum litum, svo sem oft vill verða, þegar erfið dæmi eru leyst með handafli.

Hin nýju borgaryfirvöld í Reykjavík virðast telja sig hafa ráð á að spýta í þetta dæmi 150 milljónum króna, sem gömlu borgaryfirvöldin gátu ekki, enda dösuð af Perlu og ráðhúsi og Árbæjarlaug. Það hefur löngum verið auðvelt að vera örlátur á kostnað skattborgaranna.

Borgin getur líklega greitt hlut borgarbúa, en annað er, hvort borgar- eða þjóðarsómi heimti þvílíkt frumkvæði hennar, að málsábyrgð lendi að mestu á borginni.

Jónas Kristjánsson

DV