Nú er góður tími til naflaskoðunar hjá Reykjavíkurlistanum, mitt á milli síðustu kosninga og hinna næstu. Borgarstjórinn er mitt á milli þess að gera sig eða gera sig ekki. Margir eru orðnir leiðir á þaulsætnum oddvitum samstarfsins. Og í skipulagsmálum sætir listinn mikilli og vaxandi gagnrýni.
Vandi Reykjavíkurlistans er samt lítilfjörlegur í samanburði við vandræði samstarfsins í ríkisstjórn, þar sem helzti þjóðarleiðtoginn hefur glatað sambandi við fólkið og hinn býr við nagandi ótta um að fá ekki að verða forsætis. Þar er færi á naflaskoðun, ef einhvers staðar er færi á henni.
Borgarstjórinn nýlegi er greinilega vandamál og hlaut að verða það. Hann kom ekki úr pólitíkinni, ekki brýndur af úrslitum kosninga, heldur eins og álfur út úr hól, handvalinn og signdur af fyrirrennara, sem hélt að hún væri að verða forsætisráðherra, en vantaði svo herzlumuninn.
Borgarstjórinn reynir að vera góður við alla og hleypur milli grillboða og almannaskokks í stað þess að stjórna borginni og gera hana að vin í þeirri eyðimörk, sem ríkisstjórnin hefur búið til í landsmálunum. Í haust fer að koma tími hjá honum til að gera sig pólitískt eða ekki.
Um svipað leyti fer að koma tími hjá oddvitum flokkanna, sem standa að Reykjavíkurlistanum að gera upp hug sinn og ákveða, hvort mildar óvinsældir þeirra eru vandræði, sem muni bara magnast næstu tvö árin. Ef svo er, þá er kominn tími til að gefa fleiri bolta á þá, sem neðar standa.
Tvö kjörtímabil án hlutverkaskipta eru fólki langur ferill í stjórnmálum. Þrjú kjörtímabil eru stórhættuleg eins og við höfum fengið áminningu um í landsmálunum. Menn fara að haga sér eins og þeir eigi plássið, breyta til dæmis Orkuveitunni í spilavíti áhættufjárfestinga í margvíslegum hugarórum.
Skipulegust eru mistök Reykjavíkurlistans þó í skipulagi borgarinnar, einkum umferðar og þéttingu byggðar. Þess hefur þar aldrei orðið vart, að oddamenn listans hafi hlustað á gagnrýni. Verri en Hringbrautin er sú árátta þeirra að tefja árum saman fyrir mislægum gatnamótum í Kringlumýri.
Oddvitar Reykjavíkurlistans búa við hugmyndafræðilegan vanda í skipulagsmálum. Þeir eru undir niðri andvígir einkabílisma og eiga sér þann draum að geta troðið fólki með góðu eða illu inn í strætó. Þeir trúa í blindni á þéttingu þeirrar byggðar, sem fyrir er, í stað þess að þétta í nýrri byggð.
Reykjavíkurlistinn getur hafið naflaskoðun sína á að láta stokka spilin í stjórn Orkuveitunnar og borgarskipulagsins og veita borgarstjóranum pólitíska stöðu til að stokka.
Jónas Kristjánsson
DV