Borgarvirki

Þetta er leiðin um vel grónar eyrar Víðidalsár, þægilegt reiðland, og síðan um Borgarvirki, landsins eina varnarvirki.

Borgarvirki er klettaborg á ásunum milli Vesturhóps og Víðidals, gostappi með 10-15 metra háu stuðlabergslagi. Efst í virkinu er skeifulaga dæld, fimm metra djúp, með hlöðnum grjótvegg í skarði að austanverðu. Í dældinni eru fornleifar af tveimur skálum og brunni. Hvergi er minnst á Borgarvirki í vígaferlum Íslendingasagna. Enginn veit því, hver innréttaði virkið og hverjir notuðu það. Þessi leið er að mestu farin með bílvegum, nema fyrri hlutinn á bökkum Víðidalsár.

Förum frá Dæli norður með vegi 715 að Stóru-Ásgeirsá. Síðan til vesturs út af vegi og svo norðvestur að Galtarnesi og þaðan með bökkum Víðidalsár að brúnni yfir ána á þjóðvegi 1. Förum nokkur hundruð metra suður með veginum að mótum vegar 716, sem við förum til vesturs og síðan til norðurs meðfram Björgum, austan við Mómela. Höldum síðan áfram jeppaveginn að Vesturhópsvatni og síðan norður holtin upp að Borgarvirki, þar sem við skoðum blöndu af náttúruundri og mannvirki. Loks förum við norður af holtunum að Stóru-Borg í Hópi.

19,7 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Húnaþing, Hópið.
Nálægar leiðir: Víðidalstunguheiði.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson