Borgin gargar

Greinar

Á leið niður Laugaveg fyrstu vikuna í desember taldi ég auðu búðarplássin. Þau voru tíu, ágæt röksemd fyrir því áliti, að Laugavegurinn gangi ekki upp sem verzlunargata. Þeim fækkar greinilega, sem veðja á veðurguðina á frægri Þorláksmessu, sem skal einu sinni á ári bjarga verzlun Laugavegarins.

Skiljanlega vilja kaupmenn láta gera eitthvað til að bjarga Laugavegi sem verzlunargötu í samkeppni við Kringlu og Smáralind eða jafnvel bara samkeppni við Skólavörðustíg, er virðist rísa sem verzlunargata. Hugmyndin um að rífa gömul hús við Laugaveg er afleiðing af minni verzlun í götunni.

Því miður hræða sporin. Borgin hefur áður sætzt á að láta rífa gömul hús við Laugaveginn og raunar víðar í austurbænum gamla. Ef við berum saman húsin 25, sem á að rífa við Laugaveg og 25 nýlega byggð hús við Laugaveg, er freistandi að taka gömlu bárujárnskofana fram yfir strengjasteypuhúsin.

Hver vill fleiri hús á borð við Laugaveg 7, er einu sinni hýsti söluskrifstofu Flugleiða á jarðhæð, sem lengi hefur staðið auð? Hver vill fleiri hús af svipuðu tagi, svo sem Laugaveg 66? Hvort tveggja er svipaður arkitektúr og troðið var illu heilli milli Hótels Borgar og Reykjavíkurapóteks.

Af fenginni reynslu slíkra húsa og margra annarra treysta menn ekki Reykjavíkurborg, ekki arkitektum hennar og ekki arkitektum kaupmanna. Slíkir kunna ekki að byggja innan í gamlan stíl, þeir vilja æpa á það gamla, sparka í það. Þeir hata gamalt bárujárn og elska stórt gler og þunga steypu.

Í borgarskipulag Reykjavíkur hefur alltaf vantað virðingu fyrir hinu gamla, og núna meira en nokkru sinni fyrr. Þannig gargar Morgunblaðshúsið á alla Kvosina, marmarabíslagið æpir á Landsbankann, glerhús Almennra frussar á Reykjavíkurapótek og Hótel Borg, Iðnaðarbankinn dissar alla Lækjargötuna.

Hér þarf að taka til hendinni, rífa Morgunblaðshúsið, rífa marmarabíslagið, rífa glerhúsið, rífa Lækjargötubankann. Hér þarf að strika yfir hroka arkitekta og vinnuveitenda þeirra. Reykjavíkurborg þarf að kasta út þeim aðilum, sem vilja þétta byggð með því að ögra nánasta umhverfi framkvæmdanna.

Reykjavíkurlistinn hefur verið hallur undir hrokann, svo sem sjá má af endurteknum styrjöldum um ruddalega nýsmíði við íbúasamtök. Kornið, sem fyllir mælinn, er hugmyndin um að rífa 25 bárujárnskofa við Laugaveg og reisa í staðinn 25 gler- og steypuhús í sjálfumglöðum tízkum síðustu áratuga.

Borgin verður að hætta að troða nýjum tízkum inn í gamlan stíl. Kaupmenn verða að finna aðrar leiðir til að selja vöru en að efna til styrjaldar milli bárujárns og strengjasteypu.

Jónas Kristjánsson

DV