Borgin tekur af skarið

Greinar

Gjaldfrjáls leikskóli í Reykjavík er mesta stjórnmálafrétt vetrarins. Í einu vetfangi hefur kyrrstöðu í velferð verið hrundið og kúrsinn tekinn aftur í átt til fyrirmyndarríkis Stóra bróður. Stefnt er gjaldfrjálsum leikskóla fyrir alla aldurflokka undir skólaaldri í heilar sjö stundir á dag.

Ráðamenn Reykjavíkur hafa vafalaust áttað sig á, að fólk er ekki eins andvígt opinberum álögum og frjálshyggjumenn hafa haldið fram. Kannanir leiða í ljós, að meirihluti fólks er tilbúinn að leggja meira af mörkum, ef tryggt er, að það leiði til aukinnar velferðar, meiri félagslegrar þjónustu.

Þetta stingur í stúf við stefnu ríkisstjórnar landsins, sem lengi hefur verið við völd og fremur reynt að snúa málum frá velferð til frjálshyggju, til dæmis með því að selja opinber fyrirtæki. Enda hafa ráðherrar brugðist ókvæða við ákvörðun Reykjavíkur og fjármálaráðherra sleppti sér á Alþingi.

Eðlilegt er, að menn séu ekki á eitt sáttir um gjaldfrjálsan leikskóla í Reykjavík. Önnur sveitarfélög verða knúin til að taka afstöðu til frumkvæðis borgarinnar og reyna að finna leiðir til að gera slíkt hið sama til að missa ekki unga fólkið til Reykjavíkur, sem verður að gósenlandi foreldra.

Deilurnar um gjaldfrelsið magna klofninginn í leifunum af Framsóknarflokknum, sem í borgarstjórn styður það, en er á móti því í ríkisstjórn. Það endurspeglar, að í borgarstjórn er Framsókn enn miðjuflokkur, en á landsvísu hefur hann rúllað til hægri, í sumum tilvikum alveg út á hægri kant.

Gott er að bera ákvörðun borgarstjórnar saman við hugmynd einnar af spunakerlingum forsætisráðherra, sem hefur það helzt til fjölskylduverndar að leggja, að börn verði klædd í skólabúninga, sem vinsælir voru áður fyrr í ríkjum fasista og í mjög stéttskiptum ríkjum á borð við gamla Bretland.

Hægri jaðarinn í flokknum, svo sem félagsmálaráðherra, þorir að vísu ekki að lýsa beinni andstöðu við gjaldfrjálsan leikskóla, en kvartar hins vegar um, að hann sé einhliða ákvörðun, sem betra hefði verið að hafa samráð um á landsgrundvelli, milli sveitarfélaga og við ríkisstjórn.

Því er til að svara, að með samráði hefði málinu verið drepið á dreif. Með einleik hefur borgin tekið frumkvæði, sem óhjákvæmilega leiðir til aukinnar velferðar, til vinstri beygju í þjóðlífinu í heild. Reykjavík er svo stór og rík, að hún getur nánast gefið forskrift að þróun næstu ára.

Í reiði sinni hótar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að svíkja samkomulag um fasteignagjöld af ríkishúsum. Hótanir eru vissulega í stíl flokksins, en þessi hótun er marklaus.

Jónas Kristjánsson

DV