Börnin sett í ánauð.

Greinar

“Við erum örugglega að nálgast það hæsta, sem þekkzt hefur í sögunni. Það er kannski helzt, að einhver Suður-Ameríkuríki, sem urðu gjaldþrota á síðustu öld, hafi farið hærra.” Þetta sagði Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor um erlendu skuldirnar í viðtali við DV fyrir helgina.

Þjóðarbúið íslenzka er komið í svipaða stöðu og húsbyggjandinn, sem hefur reist sér hurðarás um öxl. Ekki er nóg með, að slegin séu ný lán fyrir afborgunum, sem falla, heldur á þjóðarbúið ekki einu sinni upp í vextina. Þeir hrannast upp og gjaldþrot blasir við þjóðinni.

Til marks um alvöru málsins má nefna, að nú fer fjórða hver króna af vöruútflutningi okkar til að greiða vexti. Fjórði hver fiskur fer í að greiða af syndum fyrri tíma. Þetta virðast ráðamenn þjóðarinnar engan veginn skilja og halda áfram að haga sér eins og millar.

Matthías Bjarnason samgönguráðherra þeysist nú um landið til að gleðja kjósendur með áformum um að bora göt á fjöll víða um land. Þetta segir hann að séu arðbærar framkvæmdir, sem kosta megi með erlendum lánum. Þarna stöndum við andspænis enn einni geðveikisveizlunni.

Vegagerðin viðurkennir hins vegar, að engin leið sé að reikna arðsemi inn í þessi göt Matthíasar. Hún viðurkennir líka, að engin arðsemi sé í ýmsum fyrirhuguðum stórbrúm. Samt er allt þetta komið á vegaáætlun og kjósendur álíta Matthías vera mikilmenni.

Á sama tíma og þessir draumórar byltast fram og verða að veruleika er ekki hægt að leggja bundið slitlag á ýmsa vegi, þótt 10-50% arðsemi sé í þeim framkvæmdum. Það er dýrt spaug fyrir gjaldþrota þjóð að hafa stórhuga ráðherra í að bora göt á fjöllin.

Matthías er ekki einn um hituna. Samkvæmt nýsamþykktum lánsfjárlögum á að taka rúma sjö milljarða króna að láni í útlöndum á þessu ári. Þetta finnst lesendum kannski bara vera tala á blaði, en jafngildir þó um þriðjungi af vöruútflutningi þjóðarinnar á þessu ári.

Sumt af þessu fer í arðbærar framkvæmdir, sem skila meiru af sér en afborgunum og vöxtum. Annað fer í framkvæmdir, sem eru látnar skila arði með handafli. Þar er fremst orkuveizlan, sem fjármögnuð er með því að senda notendum hæstu raforkureikninga Vesturlanda.

Mikið af þessu fer svo í atriði, sem hvorki geta skilað arði á eðlilegan hátt né með handafli. Eitt fáránlegasta dæmið eru 553 milljónir króna, sem teknar eru að láni í útlöndum með 8% vöxtum til 15 ára til að endurlána til húsnæðismála á lægri vöxtum og til lengri tíma.

Sem dæmi um geðveikina má nefna, að gert er ráð fyrir, að fjárfestar verði 1.150 milljónir króna í landbúnaði á þessu ári, fjórðungi meira að magni en var fyrir tveimur árum. Það er ekki nóg með að þetta sé gersamlega arðlaust, heldur þarf þar á ofan að borga með því.

Það er ekki velferðarþjóðfélagið, sem er að gera okkur gjaldþrota, heldur óráðsían, sem hér hefur verið lýst. Við vorum lengi á hægri leið til helvítis, en síðan 1982 hefur allt verið í þriðja gír. Og ríkisstjórn ársins 1985 heldur uppi hraðanum á fullu.

Þrælasala hefur um langt skeið ekki þótt frambærilegur atvinnuvegur. Versta tegund þrælasölu er, þegar fólk selur börnin sín í ánauð. Og það erum við einmitt núna að gera með því að varpa skuldunum á afkomendurna, svo að ráðherrar geti montað sig fyrir kjósendum.

Jónas Kristjánsson.

DV