Boston

Veitingar

Legal Sea Foods í Boston
Legal Sea Foods er vönduð keðja fiskveitingahúsa í Boston, undantekningin, sem sannar regluna um, að keðjur reki jafnan vonda veitingastaði. Einna skemmtilegasta útibúið er við stóra útsýnisglugga og vandaðar innréttingar í verzlunarkringlu Prudential skýjakjúfsins í Back Bay, þar sem fólk bíður oft í röðum eftir að komast inn og fá að snæða einna ferskustu sjávarrétti borgarinnar í tandurhreinu, en hávaðasömu umhverfi, þar sem þjónagerið hleypur nánast fram og aftur.

Frægast er Clam Chowder
Frægasti rétturinn í Legal Sea Foods er þykk fiskisúpa, Clam Chowder ($3.50), sem er einkennisréttur borgarinnar og sumir forsetar Bandaríkjanna eru sagðir hafa fengið sér á þessum stað. Hún var bragðmikil, en ekki minnisstæð. Betri var viðarkolagrillaður regnbogasilungur, að Cajun-hætti frá New Orleans, með bakaðri kartöflu ($12). Hér fást alltaf hráar ostrur og aðrar skeljar, sem óhætt er að leggja sér til munns, enda er veitingahúsið með eigin sjávarrétta-rannsóknastofu. Hvítvínslistinn er einn hinn bezti í allri borginni og hófsamlega verðlagður.

Risahumar á Anthony’s Pier
Ég á alltaf góðar minningar um Anthony’s Pier 4 úti á bryggju í Waterfront hverfinu í Boston, síðan eigandinn ók mér sjálfur út á flugvöll í óvæntu verkfalli leigubílstjóra fyrir um það bil þremur áratugum. Þá var staðurinn fremur lítill og ekki enn orðinn frægur, en nú rúmar hann 1.000 manns innan við risastóra glugga á þrjá vegu og forstofurnar eru skreyttar hundruðum ljósmynda af frægum gestum, að vísu engri af mér. Verðlagið hefur alltaf verið fremur hátt, en hefur ekki hækkað með árunum. Ágætur Nýja-Englands-humar er einkennisréttur Anthony’s Pier og getur hæglega farið upp í 50 dollara á mann sem aðalréttur.

Aðrir fiskréttastaðir í Boston
Allur fiskur er góður á Anthony’s Pier, en slær ekki við stöðum eins og nágrönnunum No Name og Jimmy’s Harborside eða Legal Sea Foods, Turner Fisheries og Skipjack’s inni í miðborg Boston. Fyrir Íslendinga eru slíkir staðir áhugaverðir vegna tilbreytingarinnar, sem felst í, að tegundir sjávarafla eru sumpart allt aðrar en hér.

Faneuil markaðurinn
Mannlíf í Boston er mest á Faneuil markaðinum í borgarmiðju. Þar er allt fullt af smábúðum, sem selja mat og ýmsar nauðsynjar, svo og hefðbundið ferðamannaglingur. Við hlið hans er hótelið Regal Bostonian, þar sem uppi er dýr og fínn útsýnis-fiskiveitingasalur með fínni skeljasúpu á 7 dollara og ljúfum laxi á 25 dollara.

Morton’s steikhúsið
Eftir allan þennan fisk er hægt að hvíla sig með því að fara í helzta steikhúsið í Boston, Morton’s of Chicago á horni Boylston-götu og Exeter-torgs, þar sem bezta nautasteik Nýja-Englands er seld á 32 dollara. En þá er gott að hafa verið í svelti, því að skammturinn er sennilega ekki minni en 500 grömm. Morton’s var hálfgerður vindlakarlaklúbbur fyrr á árum, en hefur mildazt með árunum.

Jónas Kristjánsson

DV