Bráðkvaddur útvarpstexti

Greinar

Útvarpsfrumvarpið, sem menntaráðherra lét semja í hendingskasti í vetur, er á margan hátt óvenjulegt. Ekki kemur því á óvart, að meirihluti ríkisstjórnarinnar hefur af skynsemisástæðum hafnað, að frumvarpið verði lagt fram í hennar nafni á Alþingi.

Í fyrsta lagi er það samið í miklum flýti. Þegar menntaráðherra komst til valda í upphafi vetrar, kastaði hann fyrir borð nýsmíðuðu útvarpsfrumvarpi. Í staðinn lét hann formann bandalags ríkisstarfsmanna semja nýtt og gerbreytt frumvarp í grænum hvelli.

Í öðru lagi leggur ráðherra mikla áherzlu á að gefa þjóðinni rangar upplýsingar um afstöðu þeirra, sem sátu í nefndinni. Hann segist fagna samstöðu þeirra. Í raun var alls engin samstaða í nefndinni, því að einstakir nefndarmenn skiluðu margs konar séráliti.

Ekki er auðvelt að skýra, hvers vegna ráðherrann lét semja frumvarpið í svona miklum flýti og hvers vegna hann telur henta sér að gefa rangar upplýsingar um afstöðu nefndarmanna. Ef til vill hefur hann dreymt um, að hraði og offors mundu lóðsa málið til hafnar.

Í þriðja lagi er fróðlegt, hvernig ráðherrann og formaðurinn reyndu að ná sáttum milli stríðandi afla í heimi útvarps og sjónvarps. Það var ekki auðvelt verk, því að ríkisstöðvar og einkastöðvar hafa skipzt á skotum allan tímann, sem slakað hefur verið á einokuninni.

Lausnin var svo sem ekki ný af nálinni. Oft hafa tveir aðilar náð samkomulagi sín í milli um að láta þriðja aðila borga reikninginn. Í þessu tilviki áttu það að vera dagblöðin. Ríkissjónvarpið og Stöð 2 urðu sammála um að láta þau borga í fjölmiðlasjóð handa sjónvarpinu.

Í sjóðinn áttu samkvæmt frumvarpinu að renna tólf af hundraði auglýsingatekna fjölmiðlanna, þar á meðal dagblaðanna. Þetta hefur verið metið á 300 milljónir króna árlega. Sjóðnum var ætlað að stuðla að innlendri dagskrárgerð og vöndun og varðveizlu móðurmálsins.

Svo vel vill til, að innlent er allt það, sem á sjónvarpsmáli mætti kalla dagskrárgerð á dagblöðunum. Ennfremur eru dagblöðin að öllu leyti rituð á íslenzku máli, yfirleitt vandlega prófarkalesnu. Þau eru því utan vandamáls og verksviðs sjóðs útvarpslagafrumvarpsins.

Sjónvarpsstöðvarnar eru hins vegar að mestu leyti byggðar á erlendri dagskrárgerð, einkum bandarískri, og flytja að mestu efni á erlendri tungu, einkum enskri. Þar að auki hefur einkastöðin að yfirlýstu markmiði að keppa við sápuóperuefni gervihnattastöðva.

Ef einhver nýr fjölmiðlavoði steðjar að íslenzkri menningu og tungu, stafar hann annars vegar af erlendu talmáli sjónvarpsstöðva og lélegri textun þess á íslenzku og hins vegar af málhelti margra plötusnúða og annarra, sem tala í útvarp og sjónvarp.

Samkvæmt frumvarpinu átti að skattleggja þá fjölmiðla, sem hafa íslenzka dagskrá, í þágu hinna, sem hafa að mestu enska dagskrá. Um leið átti að skattleggja fjölmiðlana, sem byggjast á flutningi upplýsinga og sjónarmiða, í þágu hinna, sem treysta á afþreyingu.

Athyglisvert er, að dagblöðin þurfa engin lög til að láta segja sér, að efni þeirra skuli vera á íslenzku og fela í sér ýmislegt fleira en afþreyingu, svo sem upplýsingar og skoðanir og menningu. Það bendir til, að lög af slíku tagi komi að litlum notum, þótt fallega séu hugsuð.

Útvarpslagafrumvarp ráðherrans og formannsins hefur því að verðleikum orðið bráðkvatt sem þeirra eigið afbrigðilega og öfundsjúka Alþýðubandalagsmál.

Jónas Kristjánsson

DV