Brasilia er nýjasta rósin í fjölbreyttum garði etnískra veitingahúsa hér í bæ. Fékk þar í gær einkennisrétt frá Rio de Janeiro. Feijoada er flókin og þykk baunasúpa með svartbaunum og nokkrum tegundum af kjöti og bjúgum. Á hliðardiski voru hrísgrjón, appelsínubátar og steikt maníok-mjöl, Farófa. Fínt í frostinu á Skólavörðustíg. Aðalréttir kosta um 1600 krónur. Brasilía er á tveimur hæðum á Óðinsgötu-horninu, þar sem áður var bakarí. Að innan er staðurinn í grænum fánalit landsins, bar, borðdúkar, risamálverk og veggir. Gaman er að fá hingað í fásinnið nýstárlega strauma frá fjarlægum ströndum.