Brauðbær

Veitingar

Langt er síðan Brauðbær var smurbrauðsstofa. Árnum saman hefur hann verið alvöru veitingahús, traustur matstaður með miðlungsverð og rúmlega miðlungsgæði. Og nú lætur hann ekki lengur nægja hálfa þjónustu, það er að segja pöntun við diskinn, heldur fulla þjónustu. Og sú þjónusta er mjög góð.

Einnig er Brauðbær í þann veginn að fá nýtt aðdráttarafl. Þórsgatan er eftir tveggja ára ringulreið að breytast í göngugötu eða vistgötu eins og það heitir á sparimáli. Og um leið er verið að leggja síðustu hönd á glerskála Brauðbæjar, þar sem matar- og kaffigestir eiga að geta notið vistgötunnar án þess að hætta sér út í veðráttuna. Segja má, að þar sé von í fyrsta nothæfa gangstéttarkaffihúsi landsins.

Vinalegt og léttúðugt

Að innan hefur Brauðbær verið gerður upp. Hann er ólíkt smekklegri en áður var, enda mun opnari. Ljósir veggir fara vel við dökkar veggsúlur og bita. En miðsúlan er hálfgerður furðugripur. Skemmtilegastar eru veggskreytingarnar, sumar hverjar hálfgerðar fornminjar, saumavél, rokkur, skúffuskápur úr eldhúsi og gamall, grænn stofuskápur, sem hýsir fornlegt símtól fyrir gesti. Einnig eru þar teikningar, forsíður gamalla dagblaða og matseðlar.

Þótt þetta sé úr ýmsum áttum, verður ekki úr neitt kraðak. Dótið gefur Brauðbæ vinalegt og léttúðugt yfirbragð, sem dregur athyglina frá hversdagslegum stólunum og þrengslunum í básunum. Borðplöturnar sjálfar eru úr fallega massífum viði og bera korkplötur undir diska. Munnþurrkurnar eru því miður litlar pappírsþurrkur jafnt að kvöldi sem í hádegi.

Að útliti er vínlisti Brauðbæjar skemmtilegur. Þar eru límdir inn sjálfir flöskumiðarnir. Hins vegar er innihaldið öllu lakara. Þar er ekkert hvítvín, sem ég mundi drekka ótilneyddur. Hins vegar er þar eitt drykkjarhæft rauðvín, en afar dýrt. Utan vínlista er þó hægt að fá tvö ágæt rauðvín, en ekki slík hvítvín. Enda má ef til vill segja, að rauðvín hæfi betur veitingahúsi, sem leggur áherzlu á grillsteikur, en litla á fiskrétti.

Innifalið í verði máltíðar er aðgangur að salatborði, sem lætur ekki mikið yfir sér og virðist ekki merkilegt við fyrstu sýn. Þar leynast þó sautján tegundir, sem yfirleitt bragðast vel. Þar eru til dæmis ferskir sveppir, hrátt blómkál og rauðkál og olífur, sýrð gúrka, sýrður perlulaukur og sýrt mangó, auk ýmissa hversdagslegri atriða. Þá eru þar þrenns konar heilkornsbrauð til að hafa með súpunni.

Hinn fasti matseðill í fínu möppunni er ekki tiltakanlega langur. Til viðbótar er svo bæði í hádeginu og á kvöldin tiltölulega langur seðill dagsins, krotaður á frístæðar trönur, sem bornar eru milli borða. Verðið þar er svipað og á fastaseðlinum, einnig í hádeginu, en súpa þó innifalin.

Sveppasúpa dagsins var lítt í frásögur færandi. Hins vegar var tær fiskisúpa Fuisse ágætis súpa með vægum anískeim og þar flutu í rækjur, kræklingur, lúða og laukur.

Reyktur Mývatnssilungur var fallegur, mjúkur og bragðgóður, þótt hann væri langt frá því að hafa hið hefðbundna, mývetnska saltreiðarbragð. Með honum var borin piparrótarblönduð kotasæla, grænkál og ristað brauð með smjöri.

Skemmtilegur kabarett

Kabarett er réttur, sem býður upp á sýnishorn af nokkrum forréttum fastaseðilsins, sitt lítið af hverju. Þar var góð, heimatilbúin kæfa með rifsberjasultu. Einnig ágætis graflax með karrí-sinneps-eggjasósu. Ennfremur sjávarréttasalat með rækjum og kræklingi. Og loks skemmtileg tilbreytni, hráar, koníaks-kryddlegnar nautalundir, meyrar, en bragðlitlar, bornar fram með ferskum sveppum kryddlegnum.

Skötusels-gúllas með karríhrísgrjónum og ristuðu hvítlauksbrauði var meyrt og ljúft, en skötuselurinn nokkuð bragðlítill, meðal annars af því að hann flaut í afar góðri vínsósu, sem var bragðsterk eins og karríið í hrísgrjónunum.

Heilsteikt rauðspretta Colbert með kryddsmjöri var mildilega elduð og bragðljúf, borin fram í heilu lagi eftir að hryggurinn hafði verið tekinn úr. Á fiskinum var gífurlega mikið magn af yfirgnæfandi kryddsmjöri, sem með lagi mátti skafa frá. Hvítu kartöflurnar voru hæfilega lítið soðnar.

Lambamedalíurnar hinar þykkri voru mátulega grillaðar, meyrar og safaríkar, en hinar þynnri voru hins vegar gráar og þurrar. Fersk hindber og rifsber í sósunni gerðu hinar betri medalíur ljómandi góðar á bragðið. Bökuð eplasneið og bökuð kartafla fylgdu þessum rétti.

Turnbautinn var hæfilega snöggt grillaður, rauður, meyr og bragðmikill, með sama góða grillbrennslukeimnum og lambakjötið fyrrnefnda. Með honum fylgdi hin hefðbundna, bakaða kartafla og svo alveg einstaklega ljúf og góð rauðvínssósa með alls engu hveiti. Húrra fyrir því.

Djöflatertan var í lagi og heita eplapæið mjög gott, hvort tveggja borið fram með þeyttum rjóma. Punkturinn yfir i-ið var svo eiginlega kaffið, sem var ljómandi gott í annað skiptið og alveg frábært í hitt, eins og laumað hefði verið útí hálfri teskeið af írsku viskíi.

Miðjuverð súpa í Brauðbæ er 83 krónur, forrétta 190 krónur, sjávarrétta 270 krónur, kjötrétta 395 krónur og eftirrétta 70 krónur. með 35 króna kaffi og hálfri flösku af Saint-Laurent á mann ætti þriggja rétta veizla að kosta að meðaltali 704 krónur. Súpa dagsins, salatborð og aðalréttur ætti að kosta að meðaltali 310 krónur. Sérstakir barnaréttir eru á um það bil 120 krónur og fæst ís í ábót, ef börnin klára af diskinum.

Metnaður í Brauðbæ

Brauðbær hefur verið og er enn frekar núna mjög góður fulltrúi grillhúsa. Sem dæmi um, að hann stefnir hærra en margir slíkir, má telja, að á matseðlinum er sitthvað óvenjulegt. Á stað eins og hjá Kokknum er hins vegar ekkert spennandi atriði á matseðlinum. Slíkan samanburð má oft hafa til marks um misjafnan metnað veitingastaða.

Jónas Kristjánsson

DV