Valur Ingimundarson prófessor skrifar í International Herald Tribune í morgun um deilu ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamninginn. Hann telur bréf Davíðs Oddssonar til George W. Bush fela í sér, að engin ástæða sé fyrir bandarísku herliði á Íslandi yfirleitt, ef bandarísk stjórnvöld virði ekki varnarsamninginn á greinilegan og sýnilegan hátt. Valur segir þetta mál sérstaklega viðkvæmt fyrir íslenzk stjórnvöld, sem hafa alltaf haldið fast í þá röksemd, að varnarliðið væri hér okkar vegna. Valur telur, að deilan geti fært Ísland nær kjarnaríkjum Evrópusambandsins, ef samkomulag næst ekki.